141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:39]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekkert að ræða um aðdraganda, forsögu, málsmeðferð eða neitt fram að þessu. Ég tek bara stöðuna eins og hún er í dag. Ég hlustaði á lýsingu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur á hugmynd hennar og væntanlega meiri hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um ákveðið vinnulag hér í þinginu. Ég geri engar athugasemdir við það, ég held að það sé ágætt að fá sem flesta þingmenn í virka umræðu um þessi mál og fagna því að leitað verði eftir því.

Ég vildi hins vegar spyrja hv. þingmann um afstöðu til þess sem kemur fram í skilabréfi sérfræðingahópsins sem skilaði niðurstöðum til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í síðustu viku. Þar er lögð áhersla á að fram þurfi að fara skipulegt og heildstætt mat á áhrifum tillagna stjórnlagaráðs áður en afgreiðslu frumvarpsins lýkur.