141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:40]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég legg þann skilning í þá tillögu, eins og rætt var á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þegar þrír úr þessum sérfræðihópi komu til fundar við nefndina, að við munum samkvæmt venju kalla eftir mati — eins og ég sagði áðan, sumum eru einstaka kaflar hugfólgnir, aðrir vilja líta á heildina. Heildstætt mat er gríðarlega stórt orð og ég hef sagt það við fulltrúa í þessum hópi að auðvelt væri að oftúlka það. Hvenær lýkur heildstæðu mati? Það gæti verið svolítið erfitt að svara því.

Við ætlumst til þess að Feneyjanefndin skili ákveðnu heildstæðu mati á tilteknum þáttum sem heyra til hennar verksviðs sem er gríðarlega mikilvægt þegar kemur að lýðræðisskipan í nútímasamfélögum Evrópu á grunni samþykkta mannréttindasáttmála og annars. Það er kannski það mikilvægasta, og það sem við þurfum að passa okkur mest á, það eru valdmörkin, samspil á milli þessara stofnana eins og Alþingis, framkvæmdarvaldsins og forsetans, miðað við þær breytingar sem hér er lagt upp með. Síðan er það eins og hv. þingmaður nefndi áðan varðandi kosningafyrirkomulagið, það þarf að skoða kosningakerfið með tilliti til þess hver áhrif þess eru á fulltrúalýðræðið, á samsetningu fulltrúa á löggjafarsamkomunni. Það er hlutverk Feneyjanefndarinnar samkvæmt hennar starfsreglum. Þetta er það sem við biðjum um mat á og ég hygg að þaðan geti komið góður leiðarvísir.