141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:45]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég hef líklega ekki tíma til að fara yfir ferli þessa máls í heild, en verð þó aðeins að koma inn á hluta ferlisins vegna þess að við höfum séð aftur og aftur að stjórnvöld hafa gert alvarleg mistök í því hvernig þau hafa haldið á málinu. Í hvert skipti sem maður heldur að menn muni læra af reynslunni og reyna að nota tækifærið til að bæta vinnubrögðin er haldið áfram á sömu braut. Kastað er á glæ tækifærum til þess að vinna þetta almennilega.

Síðasta stóra tækifærið kom eftir afgerandi niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarp stjórnlagaráðs þar sem tveir þriðju hlutar þeirra sem kusu vildu að tillagan yrði lögð til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Í stað þess að vinna þá vinnu almennilega og í samræmi við það sem bæði formaður stjórnlagaráðs og varaformaður höfðu lagt til, og raunar fleiri fulltrúar ráðsins, að menn gæfu sér tíma til að fara í almennilega yfirferð, var haldið áfram á sömu braut nema hvað drögin höfðu verið send sérstakri lögfræðinefnd sem hafði þó eingöngu umboð til að fara yfir svokölluð lagatæknileg atriði.

Þrátt fyrir þetta þrönga umboð skilaði lagatæknilega nefndin 75 tillögum að breytingum og mjög afgerandi ábendingu um mikilvægi þess að fara í heildstæða úttekt á stjórnarskránni. Nefndin taldi að það þyrfti heildstæða úttekt á tillögunum, ekki dygði sú lagatæknilega yfirferð sem stjórnvöld virðast hafa ætlað að láta sér nægja til að komast áfram með málið.

Hafandi séð svo mörg dæmi um að ríkisstjórnin eða stjórnarmeirihlutinn á þingi nýti ekki þau tækifæri sem gefast til að vinna þetta mál almennilega, veltir maður fyrir sér hverjar ástæðurnar kunna að vera fyrir því. Við hljótum nefnilega að vera sammála um að minnsta kosti tvo hluti. Ef við erum ekki sammála um þá væri fróðlegt að heyra það frá formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eða öðrum stjórnarliðum í salnum.

En erum við ekki sammála um í fyrsta lagi að við viljum gera breytingar á stjórnarskránni og nýta þá vinnu sem hefur verið unnin á undanförnum árum og ekki hvað síst af stjórnlagaráðinu við yfirferð á stjórnarskránni? Þetta hljótum við að vera sammála um.

Í öðru lagi hljótum við að vera sammála um að breytingar á stjórnarskrá séu unnar faglega og í sem víðtækastri sátt. Það er reyndar álitamál hvort menn séu almennt sammála um þetta. Ég taldi að þetta segði sig nánast sjálft, enda hafa menn alla tíð unnið að breytingum á stjórnarskrá á þann hátt, faglega og í sem víðtækastri og helst í algjörri sátt.

Jón Kristjánsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, sem leiddi heilmikla vinnu við breytingar á stjórnarskránni, hafði sem algjört grundvallaratriði í þeirri vinnu að sátt næðist milli manna um breytingar. Hann teygði sig oft ótrúlega langt gagnvart stjórnarandstöðunni á þeim tíma vegna þess að hann gerði sér grein fyrir því að þegar menn ráðast í breytingar á stjórnarskránni þarf að gera það í sátt. Stjórnarskrá á að gilda fyrir alla, hún er í eðli sínu þær sameiginlegu reglur sem við getum öll meira og minna sætt okkur við að fylgja og hún þarf að gilda um langan tíma. Hún er ekki hugsuð sem stefnuyfirlýsing einnar ríkisstjórnar heldur plagg sem framtíðarríkisstjórnir og framtíðarstjórnmálamenn geta unnið út frá.

Ef nálgunin er sú núna að reyna að keyra í gegn ekki aðeins breytingar á stjórnarskrá heldur nýja stjórnarskrá í ósætti er verið að gefa mjög hættulegt fordæmi. Það skapar þá hættu að hér fari ríkisstjórnir að reyna að knýja í gegn hver sína stjórnarskrá, knýja í gegn stórfelldar breytingar á stjórnarskrá til að koma sinni heimsmynd á framfæri. Það held ég að væri í fyrsta lagi mjög hættulegt pólitískt og mundi gera stjórnarskrána að leiksoppi pólitískra átaka, en það væri líka mjög varasamt fyrir samfélagið og þann stöðugleika sem stjórnarskrá þarf að veita.

Ástæðan fyrir því að fullt tilefni er til að hafa áhyggjur er ferli málsins fram að þessu eru orð formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hér áðan sem sagði í ræðu sinni að meiri hlutinn ætti á endanum að ráða þessu máli. Jú, það væri allt í lagi að ræða þetta eitthvað en meiri hlutinn mundi á endanum knýja í gegn einhverja niðurstöðu. Skilaboðin voru skýr. Meginmarkmiðið er ekki að reyna að ná samstöðu, fá alla með á nýja stjórnarskrá, meginmarkmiðið er að ná í gegn stjórnarskrá þessarar ríkisstjórnar, stjórnarskrá núverandi meiri hluta. Meiri hlutinn ræður, sagði hv. þingmaður. Það eru vægast sagt óheppileg skilaboð við upphaf þessarar vinnu þegar ljóst er að í fyrsta lagi er lagt fram frumvarp sem ekki hefur verið reifað nema lagatæknilega og líklega allir helstu sérfræðingar Íslands á sviði stjórnskipunarmála hafa varað við að sé vanbúið og þarfnist miklu betri yfirferðar. Engu að síður er málið lagt fram og miðað við orð hv. þingmanns verður það keyrt í gegn í krafti meiri hluta.

Að hversu miklu leyti ætli verði tekið tillit til ábendinga sem berast í þessu ferli? Ástæða er til að hafa áhyggjur af því að á það muni skorta miðað við fyrstu viðbrögð hæstv. forsætisráðherra og hv. formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þegar stór hópur sérfræðinga á sviði stjórnskipunarmála sendi frá sér málefnalegar, rökstuddar ábendingar um hvað betur mætti fara og betur þyrfti að fara í frumvarpinu var því ekki tekið fagnandi, ekki tekið sem mikilvægu innleggi í þessa mikilvægu umræðu. Nei, því var svarað með tómum skætingi og árásum. Það voru ótrúleg viðbrögð við upphaf umræðu um þetta mikilvæga mál þegar helstu sérfræðingarnir á þessu sviði höfðu sett fram mikilvægar ábendingar að taka því ekki fagnandi og segja: Jú, auðvitað munum við vinna úr þessu. Nei, ábendingarnar voru túlkaðar sem gagnrýni og menn virðast ekki mega gagnrýna tillögurnar, sama hvort þeir eru sérfræðingar eða aðrir. Það er brugðist við því beinlínis með árásum á þá sem leyfa sér að bera fram slíka gagnrýni. Jafnframt er gert lítið úr ábendingu lögfræðinefndarinnar um mikilvægi heildstæðrar yfirferðar.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði að heildstætt mat væri stórt orð — væntanlega tvö stór orð eða að minnsta kosti stórt í sameiningu — og það mætti oftúlka það. Var að skilja á hv. þingmanni að það væri varasamt að hennar mati að túlka kröfuna um heildstætt mat þannig að það færi fram raunverulegt heildstætt mat? Hv. þingmaður sagði að það væri stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis sem ætti að sjá um heildstæða matið. Það væri allt í lagi að senda málið út til umsagnar, til hinna ýmsu nefnda og hinir og þessir gætu sent inn athugasemdir, en heildstæða matið ætti að fara fram í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, væntanlega í krafti þess meiri hluta sem stjórnarliðar hafa þar enn um sinn. Með öðrum orðum, það átti fyrst og fremst að fara fram pólitískt heildstætt mat á breytingunum. Það er algjörlega óljóst að hversu miklu leyti verður tekið tillit til ábendinga sérfræðinga en miðað við reynsluna er viðbúið að það verði frekar lítið. Það er mikil synd þegar svo mikil vinna hefur verið lögð á breytingar á stjórnarskrá að menn skuli ekki nota tækifærið til að ná um þær sem víðtækastri sátt og leyfa sér að koma svona fram, á meðan menn hafa alla tíð fram að þessu lagt á það áherslu að ná sem víðtækastri sátt um breytingar á stjórnarskrá.

Jafnframt var þjóðaratkvæðagreiðslan — skoðanakönnun var hún stundum kölluð — ekki til þess fallin að fá mikið af nýjum upplýsingum nema er varðaði fyrstu spurninguna. Eins og ég nefndi í upphafi skilaði hún mjög afgerandi niðurstöðu sem hefði átt að líta á sem tækifæri. En aukaspurningarnar virtust vera fyrst og fremst til þess fallnar að fá fram fyrir fram gefna afstöðu, nema kannski helst spurningin um þjóðkirkjuna en ég geri ráð fyrir að afstaða til hennar hafi komið ýmsum þeim sem komu þeirri spurningu inn í atkvæðagreiðsluna á óvart. Að öðru leyti var atkvæðagreiðslan fyrst og fremst ætluð til þess að ná fram fyrir fram gefinni niðurstöðu, niðurstöðu sem menn gátu sagt sér hver yrði og lá í raun alveg fyrir og þeir gátu virst sammála um þótt túlkunin hafi kannski verið ólík eins og við höfum séð í framhaldinu.

Það hefði hins vegar mátt ná fram miklu greinarbetri upplýsingum um raunverulegan vilja þjóðarinnar, vilja almennings, ef farið hefði verið í stóra og mikla skoðanakönnun. Ef menn hefðu einfaldlega fylgt þeim vinnubrögðum sem ber að hafa í heiðri þegar skoðanakannanir eru gerðar hefði mátt fá heildaryfirlit yfir það hvaða breytingar almenningur vildi sjá á stjórnarskrá og hvaða mál menn teldu mikilvægust. En það var líklega ekki markmiðið og hefur kannski ekki verið hjá ríkisstjórninni frá upphafi vegna þess að þó að mikið sé vitnað í þjóðfundinn stóra sem grunn allrar þessarar vinnu leyfðu menn sér að velja bara úr það sem þeim hentaði.

Hvað stóð upp úr í niðurstöðum þjóðfundarins? Það var að stjórnarskrá skyldi tryggja fullveldi landsins. Það var eitt af aðalatriðunum, jafnvel aðalatriðið sem kom út úr þeim fundi. En hvernig var farið með þá niðurstöðu? Það var kosið að líta einfaldlega fram hjá henni og draga úr þeirri tryggingu sem stjórnarskráin veitir fullveldi landsins. Þessi vinna ber ekki þess merki að stjórnvöld treysti sér til að hlusta raunverulega á vilja almennings, séu opin fyrir gagnrýni og tillögum, þvert á móti. Allt ferlið bendir til að nú eigi að nota tækifærið til að skrifa stjórnarskrá einmitt þessarar ríkisstjórnar og hún ætli sér að byggja hana að einhverju leyti á tillögum stjórnlagaráðs. En miðað við hvernig að málinu hefur verið staðið til þessa má vænta þess að á þeim tillögum verði gerðar breytingar til að laga þær enn frekar að vilja ríkisstjórnarinnar í stað þess að fylgt verði því sem bæði formaður stjórnlagaráðs og varaformaður hafa lagt til um að taka mark á þessari afgerandi niðurstöðu um viljann til að fylgja tillögum stjórnlagaráðs og vinna faglega úr þeim. Það vantar algjörlega upp á það.

Þessu máli er hent hér inn vanreifuðu. Miðað við orð hv. formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar virðist ætlunin að keyra það áfram fyrst og fremst í krafti meiri hlutans en ekki að taka tillit til ábendinga, a.m.k. ekki þeirra ábendinga sem falla ekki að fyrir fram mótuðum hugmyndum stjórnarmeirihlutans um stjórnarskrá.