141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:14]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ýmsir sérfræðingar, m.a. sérfræðingar sem ríkisstjórnin hefur nýtt sér mikið við vinnu hinna ýmsu mála, hafa bent á mikilvægi þess að breytingar á stjórnarskrá eigi sér stað í áföngum eða þeim sé kaflaskipt, ef svo má segja. Eins og hv. þingmaður bendir réttilega á hefur verið lögð áhersla á mannréttindakaflann, að hann sé tekinn út fyrir og skoðaður sérstaklega, og er ekki vanþörf á því nú frekar en áður. Það sama hlýtur að eiga við um stjórnskipan landsins. Það er ekki síður mikilvægt mál enda hlutverk stjórnskipanarinnar að standa meðal annars vörð um mannréttindi sem mannréttindakaflinn á að tryggja. Þar af leiðandi segir það sig eiginlega sjálft að sá kafli ætti að fá sambærilega meðferð.