141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:17]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Mig langar að byrja á að fagna. Það gleður mig svo að standa hér í dag og taka þátt í 1. umr. um frumvarp til stjórnarskipunarlaga þar sem vinna stjórnlaganefndar, þjóðfundarins, stjórnlagaráðs og vilji þjóðarinnar tjáður í þjóðaratkvæðagreiðslu er lögð til grundvallar. Við erum sem sagt komin þetta langt í ferlinu. Til hamingju öll. Kominn tími til, segja sumir, en í raun erum við á hárréttum tíma miðað við að stjórnarskrárbreytingar eru það síðasta sem samþykktar eru á kjörtímabili. Að samþykkt lokinni ber að rjúfa þing, kjósa á nýjan leik og svo þarf nýtt þing að samþykkja plaggið líka. Það vona ég að verði raunin og ég ætla að gera allt sem í mínu valdi stendur til að svo verði. Ég vil taka fram að mér finnst við hafa nýtt kjörtímabilið vel í þessa vinnu. Hér hefur farið fram mikil vinna, bæði við að búa til plaggið, rýna það, fara yfir og skilja hvað það felur í sér.

Það plagg sem nú er lagt fram er frumvarp stjórnlagaráðs að lokinni yfirferð sérfræðingahóps sem fór yfir skjalið frá sjónarhóli lögspekinga. Markmiðið var að skoða hvort þarna væri eitthvað sem gengi ekki upp lögfræðilega eða rækist hvert á annars horn. Hópurinn skilaði niðurstöðu sinni til nefndarinnar í síðustu viku og á heildina litið finnst mér hann hafa unnið gott verk þótt ég setji spurningarmerki við nokkur atriði og ég mun gera betur grein fyrir þeim á eftir.

Stundum er sagt að stjórnarskráin hafi ekki valdið hruninu og það er alveg rétt, en við sem lentum í þeim ósköpum öllum og viljum nýtt og betra samfélag hljótum að spyrja hvort hægt sé að koma í veg fyrir þá spillingu sem átti drjúgan hlut í hruninu með stjórnarskrárbreytingum. Ég tel að minnsta kosti þrennt í tillögum stjórnlagaráðs vinna gegn spillingu. Í fyrsta lagi skiptir miklu að valdmörk og hlutverk séu skýr. Þannig er það ekki nú. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er fjallað um hvernig menn fóru með málefni ríkisins utan formlegs vettvangs stjórnmála og stjórnsýslu. Ákvarðanir sem ríkisstjórn studd af upplýstu þingi hefði átt að taka voru teknar af tveimur mönnum sem voru kannski ekki einu sinni á fundi. Ég leyfi mér að fullyrði að það getur enginn lesið núgildandi stjórnarskrá og dregið upp sæmilega skýra mynd af því hvernig við höfum hlutina hérna, án þess að þekkja til. Þegar valdmörk eru ekki skýr er erfitt og jafnvel útilokað að benda á þegar einhver fer út fyrir sinn ramma.

Í öðru lagi er réttur almennings til upplýsinga styrktur svo um munar í frumvarpi stjórnlagaráðs. Hér hefur lagahópurinn sem fór yfir frumvarpið gert nokkrar breytingar sem mér finnst nauðsynlegt að breyta til baka og ætla að fjalla um á eftir. En fyrst ætla ég að fara yfir hvernig stjórnlagaráð lagði þetta upp.

Í 14. gr. er kveðið á um skoðana- og tjáningarfrelsi. Þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld skulu tryggja aðstæður til opinnar og upplýstrar umræðu. Óheimilt er að skerða aðgang að netinu og upplýsingatækni nema með úrlausn dómara og að uppfylltum sömu efnisskilyrðum og eiga við um skorður um tjáningarfrelsi.“

Mér finnst mjög mikilvægt að þetta ákvæði verði áfram inni.

15. gr. fjallar um upplýsingarétt. Ég er sáttari við breytingarnar sem hafa verið gerðar á þeirri grein, en ég tel hana mjög mikilvæga því að hún tryggir rétt almennings til upplýsinga frá stjórnvöldum.

16. gr. fjallar um frelsi fjölmiðla, frjálsa og upplýsta þjóðfélagsumræðu.

17. gr. fjallar um frelsi vísinda, fræða og lista.

Þetta eru grundvallaratriði í mínum huga því að ef við höfum engin tól og tæki til að komast að því hvað er að gerast á bak við luktar dyr í Stjórnarráðinu eða víðar getum hvorki við þingmenn né almenningur gert neitt í því. Við getum ekki gert neitt í því sem við vitum ekkert um.

Það sem mér finnst svo gott er að þessar greinar eru hluti af mannréttindakaflanum, upplýsingafrelsi er skilgreint sem mannréttindi.

Ég hef ekki heyrt neinn mæla á móti þessum nýju greinum en ég hef heyrt marga andstæðinga nýrrar stjórnarskrár segja að það hafi verið óþarfi að endurskrifa mannréttindakaflann. Þetta höfum við heyrt nokkra segja í dag þótt umræðan sé nýbyrjuð. Mig grunar að það sé vegna þessara ákvæða. Það er einhvern veginn ekki hægt að vera á móti þeim opinberlega en ef maður hefur eitthvað að fela eða vill geta gert hlutina bak við luktar dyr eru þær verulega andstyggilegar, sérstaklega í því formi sem þær voru upphaflega settar fram.

Í frumvarpinu er einnig kveðið á um margvíslega aðra upplýsingaskyldu stjórnvalda, til dæmis vegna umhverfis og náttúru og vegna fjárhagslegra hagsmuna þingmanna og ráðherra og þeim gert að veita þinginu réttar upplýsingar. Það er einmitt nýmæli í þessu frumvarpi því að það hefur ekki verið skylda hingað til. Mér finnst þetta mjög gott. Einnig er skylt að veita upplýsingar um styrki til stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og réttur fjárlaganefndar þingsins til upplýsingaöflunar er styrktur. Ég held að við öll sem höfum starfað á þeim vettvangi ættum að gleðjast yfir því.

Þriðja atriðið sem ég vil nefna sem öflugt vopn í baráttu gegn spillingu er auðveldara inngrip almennings í stjórnmálin og stjórnsýsluna. Mörg okkar vöknuðu upp við vondan draum veturinn 2008–2009 þegar við áttuðum okkar á að við gætum ekkert gert. Það eina sem við gátum gert var að vera með læti fyrir utan þetta hús. Við erum komin fram á 21. öldina og það hlýtur að vera hægt að gera hlutina öðruvísi. Það hlýtur að vera hægt að gefa almenningi tækifæri til að hafa áhrif á stjórnvöld. Mér finnst hér vera lögð til leið sem gengur upp með því að hluti þjóðarinnar getur krafist þjóðaratkvæðagreiðslu eða lagt fram þingmál. Með því tryggjum við aðkomu almennings að lagasetningu og stjórn landsins. Menn geta líka lagt fram tillögu um þingrof eða að einstakir ráðherrar víki ef þörf krefur. Það eru líka þingmál. Þetta getum við ekki nú og þess vegna stóð almenningur fyrir utan þetta hús í janúar 2009 og átti engin önnur ráð.

Hrunið var mannanna verk en það er óþarfi að láta annað eins henda aftur. Lærum af því sem gerðist. Mér finnst það frumvarp sem við ræðum hér risastórt stökk í rétta átt, risastórt stökk í að læra af hruninu og reyna að koma í veg fyrir að nokkuð svoleiðis geti gerst aftur.

Það er margt sem mér þykir sérstaklega vænt um í þessu skjali. Mér þykir vænt um auðlindaákvæðið í 34. gr. og mér þykir vænt um mannréttindakaflann eins og hann leggur sig. Ég tel að þar sé margt lagt til sem skiptir miklu máli og tilheyrir nútímanum og mér finnst ekki vera of mikil mannréttindi eins og sumum hefur fundist.

En það eru nokkur atriði sem ég set spurningarmerki við í þeirri vinnu sem hefur farið fram og koma fram í þessu frumvarpi. Það eru meðal annars breytingar á þeim greinum sem ég nefndi áðan en einnig vil ég nefna eignarréttarákvæðið, þ.e. 13. gr. Seinni hluti 13. gr. um að eignarréttinum fylgi skyldur er felldur út og hann er fluttur ásamt öðrum takmörkunum á réttindum yfir í 9. gr. Ég vil að eignarrétti fylgi skyldur og þess vegna finnst mér þetta vera efnisbreyting og mér finnst að við þurfum að skoða hana nánar. Mér hefur líka verið bent á viðbót við 24. gr. þar sem segir að virða skuli rétt foreldra til að tryggja að menntun barna þeirra sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra. Þetta held ég að hljóti að teljast efnisbreyting, en kannski er hún komin til vegna einhverra af þeim alþjóðlegum sáttmálum sem við höfum samþykkt. Þetta er atriði sem nefndin þarf að skoða og fara yfir.

Eins og ég sagði áður er ég ekki sátt við meðferðina á 14., 15. og 16. gr. og ég tel nauðsynlegt að við breytum þeim til baka og virðum þann vilja sem kemur fram í frumvarpi stjórnlagaráðs. Í þessum þremur greinum er töluvert fært á milli innbyrðis og við þurfum að gæta vel að því að ekkert vanti. Í raun finnst mér 15. gr. sem slík eiginlega betri eftir yfirferð lagahópsins því að hún snýr núna bara að réttindum borgaranna til upplýsinga frá hinu opinbera. Hún er hreinni og tærari, en við þurfum að gæta þess að ekkert vanti sem upphaflega átti að vera þar. Í 15. gr. sagði að öllum væri frjálst að safna og miðla upplýsingum en þessi setning hefur verið færð yfir í 14. gr. og orðalaginu breytt. Ég er ekki sannfærð um að nýja orðalagið nái utan um hugmyndina en nú segir í 14. gr., með leyfi forseta, að „öllum sé frjálst að leita eftir, taka við og miðla upplýsingum“. Ég sakna orðsins „safna“ úr 15. gr. eins og hún var.

Alvarlegast af öllu finnst mér þó að 3. mgr. 14. gr. um netfrelsið er tekin út en hún hljómaði svo, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld skulu tryggja aðstæður til opinnar og upplýstrar umræðu. Óheimilt er að skerða aðgang að netinu og upplýsingatækni nema með úrlausn dómara og að uppfylltum sömu efnisskilyrðum og eiga við um skorður við tjáningarfrelsi.“

Ástæðan fyrir því að mér finnst þetta svo mikið grundvallaratriði er að við höfum orðið vitni að því, bara nýlega í arabíska vorinu að stjórnvöld slökktu á internetinu vegna þess að það var samskiptavefur fólks. Netið var vegirnir í landinu sem fólkið notaði til að hafa samskipti sín á milli og skipuleggja hvar, hvenær og hvernig það ætlaði að hittast. Þetta er eitthvað sem má aldrei gera. Ég hef fundið fyrir ritskoðun á internetinu á eigin skinni því að ég dvaldi í nokkra mánuði í Kína og var að reyna að vinna í tölvunni minni og á netinu. Ykkur að segja þá virkar internetið í Kína ekki eins og internetið á Íslandi eða í Bandaríkjunum. Skertur aðgangur að netinu er raunveruleg hætta og mér finnst full ástæða til að binda í stjórnarskrá að aðgangur að netinu sé réttindi sem megi aldrei skerða.

Einnig hefur verið bent á að eftir yfirferð lagatæknanna hljómar frumvarpið ekki jafnvel. Frumvarp stjórnlagaráðs er á mjög fallegu máli, tærri og fallegri íslensku, og hefur ákveðinn tón sem þessi yfirferð laga, tæknilega yfirferð hefur aðeins flatt út. 5. gr. hét til dæmis Skyldur borgaranna en heitir núna Gildissvið, sem mér finnst ekki tært og fallegt, mér finnst það bara frekar ljótt. En það er skýrara og þótt hitt sé fallegra þurfum við að hugsa um hvað er skýrt og hvað virkar og þurfum kannski að takmarka okkur við það.

Frumvörp fara alltaf í gegnum þrjár umræður á Alþingi áður en þau eru endanlega samþykkt og góð og gild ástæða er fyrir því. Nú þurfum við að fara yfir þetta frumvarp. Mér finnst það leiðarljós sem við höfum hér algjörlega skýrt. Það er frumvarp stjórnlagaráðs sem liggur fyrir og meiri hluta vilji kjósenda sem kaus í þjóðaratkvæðagreiðslu og vildi leggja frumvarp stjórnlagaráðs til grundvallar að nýrri stjórnarskrár. Það eru leiðarljósin. Ef við breytum einhverju verðum við að breyta því til baka eins og hlutirnir voru, en ekki eins og einstakir þingmenn vilja hafa það.