141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin svo langt sem þau ná en ég geri ráð fyrir að fá frekari svör. Mig langar til að spyrja áfram. Við verðum væntanlega að búa við stjórnskipunina eins og hún er í dag eða eyða henni. Ég ætla að standa við þá stjórnarskrá hvað sem gerist. Samkvæmt henni verður stjórnarskránni ekki breytt nema með því að um leið og búið er að samþykkja breytingar á stjórnarskrá þarf að rjúfa þing og boða til almennra kosninga, þá er kosið þing til að stjórna landinu næstu fjögur ár, setja lög og reglur, leysa efnahagsvandamál heimilanna væntanlega o.s.frv., það verður ekki kosið um stjórnarskrána. Síðan kemur nýtt þing og það samþykkir nýju stjórnarskrána og þá er hún orðin gildandi stjórnarskrá.

Ég vil spyrja hv. þingmann um þetta ferli. Nú hafa menn verið með hugljómanir um að hægt sé að setja inn í nýja stjórnarskrá ákvæði um að hún taki ekki gildi endanlega fyrr en þjóðin hafi samþykkt hana. Hvað gerist þá á milli? Þá er sú gamla búin, nýja hefur ekki tekið gildi — engin stjórnarskrá. Hvernig virka hæstaréttardómar þá? Er ekki miklu skynsamlegra að samþykkja við næstu kosningar breytinguna á 79. gr. sem ég hef lagt fram og liggur fyrir nefndinni og hefur örugglega verið rædd í þessari miklu efnislegu umræðu um stjórnarskrána í hv. nefnd? Það er hægt að samþykkja ekkert annað og hafa hæfilega þröskulda. Í frumvarpi mínu eru mjög háir þröskuldar, 40 þingmenn og helmingur atkvæðabærra kjósenda, þetta eru háir þröskuldar. Mér finnst að hv. nefnd eigi að senda til Feneyjanefndarinnar skoðun á því hvernig þessir þröskuldar ættu að vera. Eiga þeir að vera 47% af öllum kjósendum? Hvernig vilja menn hafa það? Ekki viljum við hafa stöðugar breytingar á stjórnarskrá og heldur ekki þannig að ekki sé hægt að breyta henni.