141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:38]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Ég ætla að byrja á að reyna að svara því sem ég gat ekki svarað síðast, um meðfæddan rétt til lífs. Ég hef ekki eitt einhlítt svar við þessu en ég veit að hugsunin í þessu ákvæði á ekki að snúa að fóstureyðingum. Við erum með (Gripið fram í.) lög um fóstureyðingar. Ég tel að þetta snúi að því að ef maður á annað borð fæðist eigi maður meðfæddan rétt til lífs. Það getur ýmislegt gerst á meðgöngu, reyndar svo mikið að það er eiginlega kraftaverk í hvert skipti sem barn fæðist.

Hvað það varðar að láta þjóðina samþykkja breytingar á stjórnarskrá er það tæknilega mjög snúið. Mér finnst það góð hugmynd. Ég hef ekki tæknilega lausn á því. Samkvæmt gildandi lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur þarf allt að vera frágengið þremur mánuðum áður. Hugsanlega er lausnin sú að vera búin með 3. umr. en eiga atkvæðagreiðsluna eftir þremur mánuðum fyrir kjördag og vera þá líka búin að samþykkja frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu sem færi fram samhliða kosningum. Það er ein leið sem ég hef velt fyrir mér. Í því umhverfi sem við erum í efast ég um að við náum henni en það væri leið sem ég gæti fellt mig við. Önnur leið er frumvarp þingmannsins um að breyta fyrst 79. gr. og fara svo með heildarplaggið í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu, það er líka möguleiki. Ég held að við ættum að stefna á hitt frekar.