141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:59]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað mikilvægt að þjóðin fái að greiða atkvæði um stjórnarskrána og það hefur verið í því ferli. Við höfum gengið í gegnum það ferli að þjóðin hefur greitt atkvæði um tillögur stjórnlagaráðs sem ég tel afar mikilvægt og hefur auðvitað verið okkur mjög gott veganesti í þeirri umræðu sem við erum byrjuð að ganga í gegnum í þinginu. Síðan hafa komið fram tillögur um það, mér heyrist að það fái góðar undirtektir, að þjóðin greiði aftur atkvæði um stjórnarskrárbreytingar sem vonandi nást fram á hv. þingi. Það eru þrjár leiðir til þess, virðulegi forseti, og við höfum farið í gegnum þær. Það getur verið áður en gengið er til kosninga, eftir að gengið er til kosninga og það getur verið samhliða þeim. Það eru vissulega þrjár leiðir til þess að þjóðin fái aftur að segja álit sitt í því máli og það er auðvitað mikilvægt.