141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:02]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra orðaði það einhvern veginn þannig í ræðu sinni að ekki væri hægt að víkja frá tillögum stjórnlagaráðs í grundvallaratriðum. Hvað þýðir það? Er hæstv. forsætisráðherra að segja að Alþingi geti ekki gert þær breytingar sem því sýnist á þessu frumvarpi? Hver er það sem hefur vald til að breyta stjórnarskránni, er það Alþingi eða er það einhver annar?

Ég vil fá nánari skýringar á þessu hjá hæstv. forsætisráðherra af því að hún sló dálítið úr og í með það hvort hún telji að hægt sé að víkja frá þessum tillögum. Er það ekki alveg augljóst mál að nú er hafin efnisleg umræða hér á Alþingi? Í því felst að við munum taka til skoðunar þær 75 breytingar sem sérfræðingahópurinn gerði, sem voru nota bene mjög margar efnislegar. Það er ekki nokkur maður hér á landi sem skilur hvað lagatæknilegar breytingar eru. Auðvitað eru lagatæknilegar breytingar efnislegar breytingar.

Ég vil bara fá það fram í eitt skipti (Forseti hringir.) fyrir öll hjá hæstv. forsætisráðherra hvort það sé ekki alveg á hreinu að nú er hafin efnisleg umræða á Alþingi og það er Alþingi sem ákveður hvaða breytingar verða gerðar.