141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:05]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það skiptir mjög miklu máli að við séum sammála um það hér í þingsalnum að sú efnislega umræða sem hefst nú á þinginu feli það í sér að þær breytingar sem nauðsynlega þarf að gera á þessu máli verði gerðar.

Virðulegi forseti. Það hefur auðvitað aldrei verið svo í fyrri stjórnarskrárnefndum að krafa hafi verið uppi um heildstæða endurskoðun stjórnarskrárinnar. Menn hafa verið að takast þar á um einstaka þætti. Það er það sem við höfum verið að kalla eftir, sjálfstæðismenn, að við komum okkur saman um þá þætti sem þarf að breyta. Ekki koma hér eins og hæstv. forsætisráðherra segir og halda því fram að þeir sem hafa ekki fallist á það séu með einhver annarleg sjónarmið og nú eigi að koma í veg fyrir annarleg sjónarmið.

Virðulegur forseti. Í lokin vil ég segja þetta: Í breytingum sérfræðihópsins er gert ráð fyrir að breytingar á mannréttindakaflanum séu þannig að það eigi að gerast á tveimur þingum eftir gömlu aðferðinni en ekki I. kafli stjórnarskrárinnar til dæmis þar sem meðal annars er ákvæði um að allt ríkisvald spretti frá þjóðinni. Þá spyr ég hæstv. forsætisráðherra: (Forseti hringir.) Er það viðurhlutaminna, það grundvallaratriði, en einstök ákvæði í mannréttindakaflanum?