141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:06]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í mínum huga eru mannréttindaákvæði í stjórnarskránni hvað mikilvægust. Ég held að það séu fá ef nokkur ákvæði þar sem maður tekur fram yfir mannréttindakaflann. (Gripið fram í: Af hverju …) Enda var það svo að sérfræðinganefndin lagði til að það þyrfti að fara í gegnum tvö þing með kosningum á milli ef breyta ætti mannréttindaákvæðunum. Það sem hv. þingmaður nefnir hér varðandi aðra þætti, sem grundvallarbreytingar eru gerðar á, þá þarf bara að skoða hvort það þurfi að fara í gegnum sama feril og mannréttindaákvæðið, þ.e. að ekki dugi að það fari í gegnum eina þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ekki er hægt að útiloka eitt eða neitt í þessu sambandi, menn eiga bara að skoða þetta jákvætt. Mér finnst hv. þingmaður ansi hornóttur miðað við þær ræður sem ég hélt hér áðan þar sem mér fannst ég vera að rétta út sáttarhönd hvað það varðar að vera opin fyrir því að skoða hvernig hægt væri að ná sem breiðastri sátt í þessu máli.