141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:12]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að í þeirri efnislegu umræðu sem nú hefst á Alþingi um það frumvarp sem hér um ræðir hefur Alþingi fullkomið vald yfir því hvaða breytingar verða gerðar og hvernig þær verða gerðar. Það er þá alveg á forræði Alþingis að ákveða með hvaða hætti vinna á verkið áfram, að ákveða hvort ástæða er til að kaflaskipta því, áfangaskipta því eða skipta því einhvern veginn öðruvísi.

Nú er hafin sú efnislega umræða sem margoft hefur verið kallað eftir og í því felst að sjálfsögðu að stjórnlagaþingið Alþingi er með málið.

Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir sagði í ræðu sinni í dag að í þeirri tillögu sem hér um ræðir væru gríðarlegar breytingar á núgildandi stjórnarskrá. Ég tek heils hugar undir það með hv. þingmanni, hér eru á ferðinni gríðarlegar breytingar á núgildandi stjórnarskrá. Segja má að á margan hátt sé verið að umturna ýmsum ákvæðum í gildandi stjórnskipunarrétti, bæði að afnema ákvæði, breyta og bæta við og gera gríðarlegar breytingar á stjórnskipunarþætti stjórnarskrárinnar og alls konar aðrar breytingar.

Þegar gerðar eru svo gríðarlegar breytingar, svo ég noti orðfæri hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur, er ábyrgð Alþingis mjög mikil. Það þarf að ígrunda þær gríðarlegu breytingar sem lagðar eru til, hvað felst í þeim, hvaða áhrif hafa þær, og leita til allra þeirra sem hjálpað geta og aðstoðað Alþingi við verkið.

Ég geri engar athugasemdir við það verklag sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir upplýsti okkur um áðan um að leitað skyldi til alls Alþingis varðandi málið. Það er ágætt að hér hefjist mikil umræða innan veggja Alþingis í nefndum þingsins. Ég spyr mig reyndar að því hvenær við eigum að hafa tíma til að sinna öllum verkefnunum á þeim örfáu vikum sem eftir lifa af þinginu fram að jólum. Menn hljóta þá að gefa nefndum þingsins mjög rúman tíma til að fjalla um málið. Á meðan verið er að ræða það er augljóst að ekki verður fjallað um önnur mál. Það liggur þá bara fyrir að mikil umræða mun hefjast í hv. atvinnuveganefnd um náttúruauðlindaákvæði stjórnarskrárinnar og á meðan hún stendur yfir er minni tími til að ræða önnur mál. Það segir sig sjálft.

Ég geri ekki athugasemd við að nefndir þingsins skoði málið og ég hef reyndar haft þá skoðun lengi að það sé mjög brýnt að allir alþingismenn taki þátt í umræðu um breytingar á stjórnarskrá. Ég get tekið undir það með þingmanni, þetta er ekki einkamál örfárra þingmanna heldur eiga allir alþingismenn að taka þátt í því.

Það er líka jafnaugljóst að allir færustu sérfræðingarnir hér á landi og sérfræðingar annars staðar sem við getum leitað til eiga að sjálfsögðu að vera kallaðir til ráðgjafar um þær tillögur sem hér liggja fyrir. Það hlýtur að vera nokkuð augljóst. Það hlýtur að vera þá svo að fara á í heildstæða athugun á því hvað tillögurnar þýða. Við hljótum að sjálfsögðu að leita til færustu sérfræðinga okkar í stjórnskipunarrétti. Ég geng út frá því að það verði gert og ég er þess fullviss að hv. formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, Valgerður Bjarnadóttir, er mér sammála um það.

Ég skil skilanefnd sérfræðingahópsins á þann hátt að um leið og nefnt er í skilabréfi þeirra að rétt sé að leita til Feneyjanefndarinnar eigi að fara í heildstætt mat á tillögunum. Það mat yrði þá gert um leið og málið er sent til Feneyjanefndarinnar. Það er alveg rétt að ég sagði það í þessum stól að ég teldi rétt að til hennar yrði leitað, en ég tel jafnrétt að við leitum til innlendra sérfræðinga okkar. Ég hygg að við höfum góðan tíma á komandi vikum til að gera það. Ég kalla eftir því að það verði gert.

Á fyrri stigum málsins var á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar rætt töluvert að fá Lagastofnun Háskóla Íslands til verksins. Niðurstaðan var sú að það yrði ekki gert. Á þeim tíma settu menn í meiri hlutanum fyrir sig að það tæki svo langan tíma. Ég ítreka þá afstöðu mína sem ég hef ávallt gert að það sé allt í lagi að umræðan taki tíma, það sé allt í lagi að við vöndum okkur við málið og að það sé allt í lagi að við nýtum tíma til þess og kostum einhverju til til að fá vinnu slíkra sérfræðinga þegar við höfum svo mikilvægt stjórnskipunarverkefni í höndunum. Það hlýtur þá að gilda það sama um Feneyjanefndina og aðra sérfræðinga sem leita þarf til.

Ég mun ekki setja það fyrir mig að menn verji fé til að fara yfir þær tillögur sem hér er um að tefla þegar um er að ræða jafnbrýnt mál og stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Ég get ekki sætt mig við að ekki eigi að gera það þegar um slíkt grundvallarmál er að ræða af því að það kosti peninga. Afleiðingarnar af því að gera það ekki geta verið mjög alvarlegar.

Þá vil ég koma að þeirri umræðu sem verið hefur í þjóðfélaginu á undanförnum vikum, hún hófst reyndar að einhverju leyti fyrir ári síðan þegar fundaröð hófst á vettvangi lagadeilda háskóla um tillögurnar sem þá voru í burðarliðnum. Tillögurnar höfðu verið kynntar skömmu áður og núna síðast voru þær ræddar á tveimur fundum sem haldnir hafa verið í Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík.

Reyndar kom fram fyrr í dag nokkuð góð lýsing á þeim fundi sem haldinn var í Háskóla Íslands. Mig langar til að nefna nokkur atriði sem fram komu í máli lektors lagadeildar í Háskólanum á Akureyri, Kristrúnar Heimisdóttur, á fundi sem haldinn var í Háskólanum í Reykjavík. Þar kynnti hún til sögunnar óformlegt álagspróf á stjórnarskránni, þ.e. hún beitti raunhæfum dæmum á tillögur til stjórnarskrár sem liggja fyrir. Niðurstaðan var sú að meðal fundarmanna voru mjög skiptar skoðanir um hvort Kristrún Heimisdóttir skildi tillögurnar rétt. Kom það meðal annars fram hjá fulltrúa sem hefur setið í stjórnlagaráði að Kristrún misskildi tillögurnar. Það var vegna dæmisins sem Kristrún tók, sem sneri að upptöku kanadadollars þar sem hún leiddi sterk rök að því að mun auðveldara væri að gera svo afdrifaríkar breytingar á þjóðfélagsskipaninni á grundvelli tillagnanna en á grundvelli núgildandi stjórnarskrár.

Það segir mér að ef misskilningur um merkingu tillagnanna kemur upp á fundi úti í bæ þar sem saman koma margir okkar bestu sérfræðingar — þarna voru staddir prófessorar í lögum og fleiri af vettvangi stjórnskipunarréttar — er augljóst mál að við þurfum að skoða tillögurnar og það er það sem við erum að fara að gera í efnislegri umræðu á þinginu. Við erum að fara að taka tillögurnar til athugunar og við ætlum að gefa okkur tíma til að skoða þær. Ég mun áskilja mér allan rétt til að koma með mínar eigin breytingar. Ég mun halda til haga sjónarmiðum mínum um að það þurfi að áfangaskipta málinu. Ég legg áherslu á það í ljósi þess að nú er 20. nóvember, hæstv. forseti, að það verður ekki tími til að gera alla þessa hluti auk þeirra stórkostlegu breytinga sem núverandi ríkisstjórn hyggst gera á öðrum grundvallarþáttum þjóðfélagsins.

Menn verða að fara að forgangsraða hlutunum. Við erum til viðtals um það og höfum alltaf sagt það, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að ræða breytingar á stjórnarskránni. Ég tek fram að við ræðum tillögurnar eftir umfjöllun stjórnlagaráðs, eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, nú þegar Alþingi er komið með málið í hendurnar, og þá hljótum við að hefja þá umræðu og taka hana mjög alvarlega. Ég mun gera það og ég mun tala fyrir því í nefndinni.

Það er afskaplega stuttur tími sem ég hef til að ræða þessi mál og raunar er ekki hægt að gera annað en impra á mjög fáum atriðum í þessari ræðu að þessu sinni, en það koma fleiri tækifæri. Mig langar að nefna til sögunnar tvö atriði í þessum tillögum, þau varða efnislegar breytingar.

Í fyrsta lagi er það sem ég hef rætt nokkuð í andsvörum í dag, sem er sú breyting sem sérfræðihópurinn gerir á ákvæði um breytingar á stjórnarskránni. Togast hafa á sjónarmið um hvernig breyta eigi stjórnarskránni, hvort rétt sé að það sé auðvelt að breyta henni, hvort breyta eigi stjórnlögum hægt eða hratt og hvernig þessi þróun eigi öll að vera. Ég er talsmaður þess að stjórnlögum eigi að breyta hægt. Það er afstaða mín. Ég er líka talsmaður þess að eðlilega sé frekar erfitt að breyta stjórnlögum. Þau innihalda slíka grundvallarþætti að það er eðlilegt að breytingar verði ekki gerðar vegna dægursveiflna í þjóðfélaginu.

Það er á þeim grunni sem sérfræðihópurinn gerir þá miklu breytingu á tillögunum að þegar um er að ræða mannréttindakafla stjórnarskrárinnar eigi tvö þing að fjalla um málið með kosningar á milli. Ég er alveg sammála því. Ég er reyndar á þeirri skoðun að það eigi almennt að gilda um stjórnlögin, en ég er alveg sammála því að mannréttindaákvæðin séu þess eðlis að það skipti gríðarlega miklu máli að menn geti ekki breytt þeim á svipstundu.

Það er líka afstaða mín, og ég ætla bara að taka einn kafla til viðbótar inn í umræðuna, að það nákvæmlega sama ætti að gilda um undirstöðu stjórnskipunar lýðveldisins Íslands. Ef sú staða kæmi upp, það er ekkert útilokað í því, það getur ýmislegt gerst í framtíðinni, að kallað verði eftir því að breyta til dæmis 2. gr. tillögunnar, um uppsprettu ríkisvalds og handhafa þess, og menn vilji breyta því með einhverjum þeim hætti — ég hef ekki hugmyndaflug um hversu dramatískt það gæti orðið — að það nákvæmlega sama ætti að gilda um það ákvæði og mannréttindaákvæðið.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar að það sama eigi að gilda um þingræðisákvæðið í 1. gr., að ég tali nú ekki um 3. gr., um að íslenskt landsvæði sé eitt og óskipt, mörk íslenskrar landhelgi og lofthelgi og slíkt. Ástæðan fyrir því að það atriði er mér svo hugleikið í dag er vegna þeirra umræðna sem ég hygg að við munum þurfa að eiga í vetur um það. Það er gríðarlega mikilvægt mál. Það skiptir gríðarlega miklu máli hvernig menn standa að stjórnarskrárbreytingum og að menn geri sér grein fyrir því að þær aðstæður geta vel skapast í þjóðfélaginu að glundroðinn verði slíkur að menn fara að hnika til þessum grundvallaratriðum. Þá er um að ræða öryggisventil handa borgurunum í stjórnarskrá.

Hvað er stjórnarskrá ætlað að vernda? Að sjálfsögðu er henni ætlað að vernda borgarana. Þegar menn hafa sett inn ákvæði í núgildandi stjórnarskrá okkar um að henni skuli breyta hægt og að það þurfi að gera með tveimur þingum og kosningum á milli, er ekki síst verið að horfa til þessara þátta. Þar á að koma í veg fyrir að skyndilega geti orðið slíkar breytingar í þjóðfélaginu að menn umturni allri þjóðfélagsskipaninni.

Það er algjörlega nauðsynlegt að setja þessi mál í það samhengi af því að það eru þau grundvallaratriði sem við fjöllum um.

Ég hef ekki tækifæri á þessu stigi til að tala um þær 75 breytingar sem sérfræðingahópurinn gerði, en ég vil hins vegar nefna minnisblöð sem Gunnar Helgi Kristinsson prófessor sendi sérfræðihópnum eftir skoðun sína á málinu. Það varðar meðal annars forsetaembættið, stöðu forseta Íslands og fleiri atriði; þjóðaratkvæðagreiðslur við forsetakosningu og fleiri slík atriði. Í minnisblaði hans koma fram verulegar áhyggjur af því að hér sé um að ræða afar róttækar breytingar. Gunnar Helgi heldur því fram að rökstuðningurinn sé svo fátæklegur að nauðsynlegt sé að staldra við.

Hér er um að ræða nokkur grundvallaratriði sem er algjörlega nauðsynlegt fyrir okkur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að fjalla rækilega um í vetur; hvað þetta merkir og hvað menn hafa ætlað sér að gera með það. Ég hvet hv. þingmenn, sem ætla að fjalla um málið í öllum nefndum þingsins, að skoða minnisblað prófessorsins þar sem hann lýsir áhyggjum sínum. Hann segir að hér sé um að ræða róttækustu breytingar sem við höfum séð á stjórnarskrá vestrænna ríkja í langan tíma. Ég held að augljóst sé að menn verða að gefa sér rækilegan tíma til að fara yfir það.

Hæstv. forseti. Tíminn er nú hlaupinn frá mér, ég er rétt byrjuð á ræðu minni en hin efnislega umræða um frumvarp til stjórnskipunarlaga er að sama skapi rétt hafin.