141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:30]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er akkúrat það, það er algjört grundvallaratriði, það erum við sem berum ábyrgð á þessum breytingum, það erum við sem ákveðum hvaða breytingar verði gerðar á stjórnlögum Íslands. Það vald verður ekki frá Alþingi tekið og undir þeirri ábyrgð þurfum við að rísa. Í því felst að sjálfsögðu að við gefum okkur tíma.

Auðvitað er það rétt hjá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur að skoðanir eru skiptar um einstaka þætti. Það sem við erum að tala núna um hér á upphafsdegi þessarar umræðu er að hér er um miklar breytingar að ræða, á nánast hverri einustu grein stjórnarskrárinnar núgildandi. Mörgum greinum er bætt við og það er ekkert endilega svo að ef þú bætir við greinum sé verkið orðið eitthvað betra. Það er verið að breyta hverri einustu, einustu grein. Það er meira að segja verið að hnika til orðalagi án þess að menn hafi endilega ætlað að breyta merkingunni. Síðan getur verið að með því að breyta orðalaginu hafi merkingin óvart breyst. Það eru alls konar svona atriði sem við þurfum að fara yfir í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Ég vil þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir að hafa kveðið upp úr um það hér í dag að við séum að fara að gera nákvæmlega það og ég bind vonir við að við í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fáum það rými hér í þinginu sem þarf í vetur, og þá líka skilning á því að þetta verk er ekki unnið á einni nóttu. Ég held áfram að tala fyrir því að menn séu tilbúnir til að sjá að rétt sé að áfangaskipta þessu verki.

Ég ætla ekki að fara að stæla við formann nefndarinnar um málið á þessu stigi, við förum með það inn í nefndina. En grundvallaratriðið er þetta: Nú er Alþingi komið með þetta mál. Nú munum við leita til þeirra sérfræðinga sem við þurfum á að halda og að sjálfsögðu verður það alltaf Alþingis að bera ábyrgð á breytingu á stjórnlögum.