141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:33]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki enn þá lesið þann lagabálk með skýringum, nefndarálitum, öðrum lögskýringargögnum sem ekki er hægt að deila um hvað merkir. Ég veit ekki betur en að það sé akkúrat þannig að þegar við tölum um lög í landinu vilji menn skilja þau á ýmsan hátt og túlka þau fyrir dómstólum á hinn og þennan veginn. Það er kannski það sem þetta mál snýst allt um.

Við erum að taka við frumvarpi sem hefur ekki áður verið til umræðu í þinginu, við erum að hefja hana núna. Að sjálfsögðu þurfum við að fara yfir frumvarpið staf fyrir staf, orð fyrir orð, setningu fyrir setningu, og fá til þess þá sem á þarf að halda. Við þurfum svo sem ekki að orðlengja frekar með það. En það er náttúrlega alls ekki hægt að halda því fram að greinargerðin sé svo skýr að það sé engan vafa að finna um túlkun á þessum ákvæðum. Það er ekki þannig.