141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:39]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég hef sagt hér nokkrum sinnum áður munum við, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hefja þá vinnu sem fram undan er um þær tillögur sem hér liggja á borðinu. Það er vel hugsanlegt að við komum með tillögu í þessa veru og líka ýmsar aðrar tillögur eftir því sem okkur þykir ástæða til eftir því sem vinnunni vindur fram.

Ég verð svo að viðurkenna það, hæstv. forseti, að ég er ekki rétta manneskjan til þess að rýna í hugsanir hæstv. forsætisráðherra um það hvernig hlutirnir eigi að ganga fyrir sig og hef því miður ekki almennilega skilning á því alltaf. Ég vil hins vegar halda því fram sem ég hef löngum gert að það má ekki vera afstaða manna að það sé óvinnandi vegur að ná samstöðu um mál. Það getur ekki verið útgangspunkturinn.

Jafnvel þótt menn hafi verið að deila um erfið mál hér á þessu kjörtímabili, mjög erfið, og jafnvel þótt við höfum gert það í mörg ár þar á undan (Forseti hringir.) getur það ekki verið þeirra útgangspunktur að ekki sé hægt að ná neinu samkomulagi.