141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:42]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef auðvitað tekið eftir þessu í skilabréfi nefndarinnar og ég hygg að þau sjónarmið sem þarna búa að baki séu mikilvægi þess að það sé stöðugt ástand í stjórn landsins. Að það sé viðamikið atriði í stjórnlögum að þau séu þannig úr garði gerð að þau skapi ekki glundroða þegar kemur að stjórn landsins, að öllum þessum hagsmunum þjóðarinnar sé best borgið með því að hér séu lög með þeim hætti að það sé hægt að tryggja stöðugleika. Þau sjónarmið sem þarna er hreyft eru að þegar um er að ræða marga litla flokka sé mun erfiðara, út af því að það séu þá svo margar skiptar skoðanir uppi, að mynda ríkisstjórn.

Þegar hv. þingmaður nefnir dæmið frá Danmörku svarar hún eiginlega spurningunni sjálf. Ég held nefnilega að ástæðan — það er mikil hefð fyrir minnihlutastjórnum í Danmörku, það er bara hefð fyrir því. Sú hefð getur vel verið vegna þess hvernig flokkaskipulaginu er háttað þar, það kann vel að vera. Ég er ekkert endilega viss um það að það sé sú leið sem við viljum fara. Ég vil miklu heldur hafa hér meirihlutastjórnir, það er mín afstaða, ég held að það sé miklu betra. Ég held reyndar að sú ríkisstjórn sem nú situr viðurkenni það ekkert að hún sé á borði minnihlutastjórn. Hún hagar sér eins og meirihlutastjórn þótt hún sé ávallt að semja sig í gegnum einstök mál. Það væri auðvitað miklu nær fyrir virðulega ríkisstjórn að viðurkenna bara stöðu málsins og fara að haga sér eins og minnihlutastjórn gerir. Það þýðir það að semja sig í gegnum hvert einasta mál en ekki fara fram með frekju í öðru hverju máli og síðan þegar á þarf að halda er hlaupið í skjólið.

Í þessu efni finnast mér þau sjónarmið sem fram komu hjá sérfræðinganefndinni skipta máli, að við (Forseti hringir.) séum að tryggja hér stöðugleika í stjórn landsins.