141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:05]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég mundi vilja inna hæstv. ráðherra eftir skoðunum hans varðandi eitt atriði til viðbótar, það er um þjóðaratkvæði að frumkvæði 10% kjósenda. 10 prósent kjósenda geta í raun lagt fram frumvarp á Alþingi sem Alþingi ber að taka til meðferðar. Þá getur það gerst að þingið leggi fram svokallaða sáttatillögu — eins ótrúlegt og það hljómar á fulltrúaþing þjóðarinnar að leggja fram sáttatillögu við þau 10% sem mundu leggja fram slíkt frumvarp — og þyki sáttatillagan ekki fullnægjandi ber þinginu að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu sem getur eftir atvikum orðið bindandi.

Um það er fjallað í 66. gr. frumvarpsins. Telur ráðherrann að það sé skynsamleg leið sem þarna á að fara, að fulltrúaþingið, sem að jafnaði er kosið með yfir 80% þátttöku hjá þjóðinni, sé sett í þá stöðu að 10% kjósenda geti krafist þess að (Forseti hringir.) þingið fari að leita sátta?