141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:10]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert eins og hæstv. ráðherra, ég hef bæði lesið frumvarpið og reynt að fara í gegnum athugasemdirnar sem því fylgja. Að sumu leyti verð ég að segja að mér varð síst rórra því að þar er m.a. kveðið á um með mjög matskenndum hætti með orðalagi eins og þessu: „Ætla má að þetta muni þýða …“ Ég get bara sagt eins og er að þegar við fjöllum um stjórnarskrána vil ég ekki að sagt sé „ætla megi að það muni þýða“, ég vil bara að það liggi fyrir klárt og kvitt. Það held ég að sé einn megingallinn við þá aðferðafræði sem nota á núna. Þarna er verið að leggja undir alla stjórnarskrána sem kallar auðvitað á matskennda túlkun á ýmsum þáttum hennar.

Ég ræddi eingöngu um hlutverk Alþingis vegna þess að við hæstv. ráðherra erum báðir reynslumiklir á því sviði. Þess vegna hnaut ég sérstaklega um ýmis ákvæði varðandi Alþingi sem þarna er að finna. Á sínum tíma var um það samkomulag, sem ég hygg að hafi síðan ekki orðið mikið ágreiningsefni í þjóðfélaginu, að hafa kjördæmaskipanina með þeim hætti sem nú er, (Forseti hringir.) með því misvægi, eins og menn hafa kallað, sem er til staðar núna. Ég tel að hér sé mjög seilst um hurð til lokunnar með þeirri aðferð sem verið er að fara varðandi þessa breytingu. (Forseti hringir.) Vilji menn fara í jöfnun atkvæðisréttar er miklu skynsamlegra að gera það á grundvelli núgildandi kosningafyrirkomulags en að fara krýsuvíkurleið að málinu eins og lagt er til (Forseti hringir.) í frumvarpinu.