141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:12]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað misvægi atkvæða í landinu búið að vera langvinnt deilumál, við þekkjum þá sögu báðir, ég og hv. þingmaður. Svo var komið á árunum fyrir 1999 að menn sáu að ekki var hægt að daufheyrast lengur við því að grípa þar inn í. Þá var sú breyting gerð sem við höfum búið við síðan og sem fyrst var kosið eftir 2003. Þá tóku menn eitt skref en fóru ekki alla leið.

Ég hefði efasemdir um að fara í það mál eingöngu út frá núverandi kjördæmaskipan og fækka verulega þingmönnum t.d. í Norðvesturkjördæminu einu. Þá hefði ég viljað dusta rykið af minni gömlu tillögu og gera landið að þremur kjördæmum; höfuðborgina, nærsvæði höfuðborgarinnar og afganginn af landinu. Það væri skipan mála sem færðist nær því jafnvægi sem ég hefði talið ásættanlegt. Þá yrði til eitt sæmilega stórt og öflugt landsbyggðarkjördæmi með tæplega þriðjung þingmanna sem væri í sjálfu sér ekki (Forseti hringir.) óeðlilegur hlutur á miðað við dreifingu íbúa á landinu í dag.