141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:15]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við ættum ekki að semja um breytingarnar strax við 1. umr. (ÍR: Ég spurði hvort þú settir þig á móti því.) Já, en ég staldraði sjálfur sérstaklega við það atriði í ræðu minni og gaf upp boltann varðandi það, að það væri nokkuð sem ég væri tilbúinn að skoða. Ég hef efasemdir um að gera þessa breytingu, ég tala nú ekki um ef menn eru horfnir frá því ráði að málin hafi verið unnin umtalsvert áður en fyrri umræðan færi fram. Það var ákveðin nálgun sem gat svo sem alveg komið til greina, en út frá venjulegum þingræðislegum viðmiðum var ég ekkert sérstaklega hrifinn af því. Mér finnst að eðlilegt upphaf þingmáls og umfjöllunar sé 1. umr. um málið, þar eigi fyrstu sjónarmiðin að koma fram og skoðanaskipti að eiga sér stað áður en málið fer inn í þingnefnd þar sem miklu þrengri hópur þingmanna sest þá yfir málið o.s.frv. Það er eðlilegt að gefa öllum þingmönnum kost á því að koma sjónarmiðum á framfæri þegar hin þinglega umfjöllun um mál er að hefjast. (Forseti hringir.)

Ef ég fengi að ráða mundi ég vilja að við héldum okkur í grófum dráttum við núverandi fyrirkomulag, en ég tek það fram að ég er opinn fyrir umfjöllun um alla þessa hluti.