141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:16]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel þetta í sjálfu sér ekki vera eitthvert stórt grundvallarmál heldur meira fyrirkomulagsmál og spurningin um það hvað við teljum vönduð vinnubrögð, fullnægjandi umfjöllun um frumvörp o.s.frv. Það situr sjálfsagt svolítið í mér að vera svo hundgamall að hafa tekið þátt í því að sameina Alþingi í eina málstofu og muna eftir umræðunum um hvort það tryggði nógu vandaða málsmeðferð að frumvörp færu bara í gegnum þrjár umræður í einni deild eða sameinuðu þingi, í staðinn fyrir sex eða fleiri umræður áður. Þá voru miklir svardagar uppi um það til dæmis að óskum um að nefnd skoðaði mál ekki bara milli 1. og 2. umr. heldur líka milli 2. og 3. yrði ekki neitað ef þær væru málefnalegar, til þess að vanda betur umfjöllun um frumvörp og lagasmíði í þremur umferðum.

Já, ég mundi segja það að menn þyrftu að hugsa sig vel um áður en þeir opnuðu fyrir þetta. Vel að merkja segir hér:

„Lagafrumvarp má ekki samþykkja fyrr en eftir minnst tvær umræður á Alþingi.“

Það útilokar ekki að Alþingi ákveði að hafa þær þrjár.