141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:19]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það hefðum við auðvitað helst þurft að vera búin að gera fyrir löngu. Það hafa verið gerðar tvær tilraunir til þess að opna upp ferlið með því að gera breytingar á því hvernig stjórnarskrá er breytt. Að aftengja breytingar á stjórnarskránni þingrofi og alþingiskosningum þannig að til dæmis sé hægt að gera minni háttar breytingar á stjórnarskrá ef einhverjar aðstæður kalla á slíkt á miðju kjörtímabili án þess að þurfa að rjúfa þing o.s.frv.

Að sjálfsögðu kæmi þá alltaf þjóðaratkvæðagreiðsla í staðinn. Það hefur alltaf verið hugsun manna svo að það er vissulega áfangi á réttri leið að útbúa það þannig.

Hv. þingmaður segir: Við þingmenn ættum kannski að byrja á því að setjast niður og ræða hvað er að núverandi stjórnarskrá. Ég tel nú að við höfum verið að gera það undanfarna áratugi. Í mínum huga er það tvennt. Annars vegar að eðlilega vantar ýmislegt í okkar gömlu stjórnarskrá sem mér finnst að eigi að vera í nútímalegri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland. Hins vegar að orðalag stjórnarskrárinnar er fornt af sögulegum ástæðum (Forseti hringir.) og segir í orði ýmislegt sem það ekki (Forseti hringir.) þýðir á borði.