141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Í ótal ræðum mínum hef ég einmitt bent á að núgildandi stjórnarskrá er hreinlega villandi. Hún segir að forseti geri samninga við erlend ríki. Það er bara ekki rétt. Ég held að allir séu sammála um að taka þetta burt. Menn geta byrjað á því.

Svo vantar stóra kafla í stjórnarskrána. Það er ekki eitt einasta ákvæði um Hæstarétt, undirstöðu dómsvaldsins, hann er bara ekki til. Það er eitt mjög athyglisvert í þessum tillögum stjórnlagaráðs og ég vil spyrja hæstv. ráðherra um það. Forseti Alþingis er varamaður forseta lýðveldisins. Það merkilega er að forsetinn, samkvæmt 82. gr., hættir að vera löggjafarvald þegar hann er kosinn forseti, þá hefur hann ekki atkvæðisrétt um frumvörp. Forseti Alþingis hættir að vera löggjafarvald. Hann verður eitthvað sem er ekki neitt og ef (Forseti hringir.) forseti lýðveldisins veikist verður forseti Alþingis bæði forseti Alþingis og lýðveldisins.