141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:02]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt að fagna því í upphafi að loksins skuli þetta mál vera komið fyrir Alþingi og það til efnislegrar umfjöllunar vegna þess að við höfum gagnrýnt það mjög að það skuli ekki hafa hlotið efnislega umfjöllun í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Nú er mjög langt síðan hið svokallaða stjórnlagaráð skilaði af sér til þingsins. Ég er jákvæð á það og hef kallað mjög eftir því að þetta mál komi inn í þingið því að þrátt fyrir að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi fengið til sín marga sérfræðinga á sviði stjórnskipunarréttar, umhverfisréttar, auðlindaréttar o.s.frv. hefur það ekki skilað sér neitt inn í umræðuna. Þessir aðilar gerðu fyrst og fremst grein fyrir sínum áherslum í því plaggi sem kom frá stjórnlagaráði en nú er þetta komið til umræðu og því ber að fagna.

Þrátt fyrir að ég sé ekki sátt við þann feril sem þessi stjórnarskrármál hafa verið sett í, og rétt að nefna í upphafi að þessu ráði var ekki falið að skrifa drög að nýrri stjórnarskrá heldur einungis gera tillögur að stjórnarskrárbreytingum, liggur samt fyrir í frumvarpsformi að hér eigi að taka upp splunkunýja stjórnarskrá. Það á að kasta fyrir róða þessari fallegu litlu stjórnarskrá sem hefur staðist tímans tönn. Mér finnst alveg með ólíkindum þegar þingmenn stjórnarflokkanna segja fullum fetum í þinginu að stjórnarskránni hafi ekki verið breytt, ekki hafi tekist að breyta stjórnarskránni undanfarin ár eða réttara sagt frá því að hún tók gildi. Það er rangt og vísa ég því algjörlega á bug. Mestu breytingarnar voru gerðar 1995 þegar mannréttindasáttmáli Evrópu var færður inn í stjórnarskrá Íslands og tókst um það mikil sátt. Minni háttar breytingar hafa auðvitað verið gerðar á stjórnarskránni alla tíð og vísa ég þar til dæmis í ákvæði um kosningar.

Ég varð að koma þessu að, frú forseti, vegna þess að mér finnst umræðan oft og tíðum á villigötum.

Í upphafi langar mig einnig að benda á að mér finnst með ólíkindum að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafi tekið ákvörðun um að úthýsa málinu enn frekar frá Alþingi þegar svo stutt er til alþingiskosninga sé einhver vilji til staðar í þá átt að gera nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni. Formaður nefndarinnar kynnti í dag að það ætti að færa hluta þessara draga, þessa frumvarps, inn í allar nefndir þingsins. Það er sérstaklega eftirtektarvert þegar maður skoðar 8. tölulið 13. gr. laga um þingsköp Alþingis. Þar stendur að hlutverk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sé að fjalla um stjórnarskrármál.

Nú skal þingnefndum drekkt fyrir jól þegar fjárlagavinnan nær hámarki og allar nefndir eiga að fá þetta frumvarp að stjórnarskrá til sín eftir málaflokkum og skila áliti til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég tel að málið liggi núna fyrst og fremst hjá þinginu og í öðru lagi hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Við sem í þeirri nefnd sitjum getum samkvæmt þingsköpum kallað til okkar þá sérfræðinga sem við teljum að eigi að koma að þessu máli en ekki dreifa heimsóknum þeirra á allar nefndir þingsins. Við ætlum að hafa hér öflugt starf í vetur, að ég tel, og það er aldrei brýnna en nú að koma atvinnulífinu af stað og koma skuldugum heimilum til hjálpar. Þess vegna á ekki að drekkja öllum nefndum þingsins í þessu máli, samkvæmt þingsköpum liggur valdið hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Ég sagði áðan að ég teldi að um mikið valdaframsal væri að ræða vegna þess að stjórnlagaráð sem var skipað af naumum meiri hluta þingsins tók þá ákvörðun að semja alveg nýja stjórnarskrá í stað þess að gera tillögur um úrbætur á núgildandi stjórnarskrá. Það tók þá ákvörðun að skrifa þessa og ég ætla að fara aðeins yfir ferilinn. Ég tel að honum sé ekki haldið nægilega vel til haga. Þetta byrjaði með lögum nr. 90/2010, um stjórnlagaþing, þá ákvað Alþingi að kosið skyldi til sérstaks stjórnlagaþings sem ætlað var að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins — ég endurtek: endurskoða. Á grundvelli laga nr. 90/2010 kaus Alþingi sérstaka stjórnlaganefnd sem var falið það verkefni að standa að þjóðfundi um stjórnarskrána og stjórnarskrármálefni þar sem kallað yrði eftir meginsjónarmiðum og áherslum almennings um stjórnskipan landsins og breytingar á stjórnarskránni. Þeirri nefnd var jafnframt falið að leggja fram hugmyndir til stjórnlagaþings um þær breytingar sem gera þyrfti á stjórnarskrá landsins.

Þarna erum við ekki enn þá komin að því valdaframsali sem ég er að tala um því að þarna er alltaf verið að tala um að það ætti að gera nauðsynlegar breytingar, breyta núgildandi stjórnarskrá. Það var kallað saman til þjóðfundar um stjórnarskrána og með þeim þjóðfundi var ætlunin að fá fram meginsjónarmið og áherslur almennings um stjórnskipan landsins og hugsanlegar breytingar á stjórnarskrá Íslands.

Svo fóru fram stjórnlagaþingskosningar á grunni þessa og þær voru, eins og frægt varð, kærðar til Hæstaréttar og stjórnlagaþingskosningarnar dæmdar ólöglegar. Þá fór meiri hluti Alþingis þá leið að breyta þessu í nefnd sem við köllum hér eftir stjórnlagaráð og var þá raunverulega klippt á milli þess að þetta væru fulltrúar þjóðarinnar. Þetta var þvert á móti nefnd skipuð af Alþingi með naumum meiri hluta.

Samkvæmt þeirri þingsályktun sem þetta stjórnlagaráð byggði á var hlutverk þess skýrt og því falið að gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þar var aldrei fjallað um að skrifa ætti nýja stjórnarskrá.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að ganga svo langt að kalla þetta tilraun til valdaráns en þarna er ákveðinni nefnd falið að gera tillögur fyrir þingið að breytingum á stjórnarskránni, en nefndin fer svo freklega út fyrir valdsvið sitt að hún skilar frumvarpsdrögum til þingsins sem eru búin að vera í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til umfjöllunar að einhverju leyti. Það endar svo með því að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar leggur þetta fram sem fullbúið þingmál í þinginu.

Þess er rétt að geta áður en lengra er haldið að við framsóknarmenn erum viljugir til að breyta stjórnarskránni. Við höfum bent á þau atriði sem við viljum breyta. Við viljum að auðlindir þjóðarinnar verði bundnar í stjórnarskrá og hef ég, ásamt fleiri þingmönnum Framsóknarflokksins, lagt fram þingsályktunartillögu sem felur það í sér að skrifað verði lagafrumvarp sem skilgreinir hverjar auðlindir landsmanna eru, hvernig skuli nýta þær og hver auðlindarenta af þeim skuli vera. Þarna kemur vilji Framsóknarflokksins skýrt fram því að ein auðlind þjóðarinnar er varin með lögum, sjávarútvegsauðlindin, og það er í gegnum lög um erlent eignarhald. Þá er ég að vísa í fiskveiðiauðlindina okkar.

Við þurfum að standa vörð um allar þessar auðlindir. Það þarf að binda þær allar í stjórnarskrá, sérstaklega í ljósi þess að nú liggur inni umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Við vitum hvað Evrópusambandið ásælist hér á landi. Það hefur beinlínis komið fram í máli þeirra aðila sem tala fyrir Evrópusambandið að þeir þurfa á okkur að halda, þess vegna er mjög brýnt að við komum því ákvæði í gegn fyrir þinglok að auðlindir þjóðarinnar skuli bundnar í stjórnarskrá.

Ég hef einnig lagt á það áherslu að það verði sett í forgang að breyta köflum I, II og V í stjórnarskrá Íslands og að þeir verði settir í forgang í þinginu. Ef Alþingi ætlar að breyta stjórnarskránni eins og lagt er til með máli þessu, kollvarpa henni og raunverulega taka upp nýja blasir við að af því hlýst mikið slys.

Kafli I snýr að stöðu okkar, kafli II að forseta Íslands og kafli V að dómstólum. Ég tel að þingið eigi að taka þessa þrjá kafla til endurskoðunar, gera á þeim þær bætur sem þarf, setja inn auðlindaákvæðið og þar með náist sátt um þessi atriði. Við vitum að til dæmis málskotsréttur forsetans hefur verið umdeildur.

Ég tel að þetta sem er ætlunin að fara í núna sé óvinnandi vegur. Raunverulega eru margar af þessum tillögum hættulegar almannahagsmunum þjóðarinnar, þá er ég til dæmis að vísa í að hér er verið að innleiða í stjórnarskrá tillögur um að Árósasamningurinn gildi hér á landi. Fyrir tilstilli stjórnarandstöðunnar var hann felldur úr lögum á síðasta þingi vegna þess að það er eins og aðilar átti sig ekki á því hvað felst í Árósasamningnum. Hann snýr að umhverfismálum, og það sem lagt er til í frumvarpi þessu er að allir hafi kærurétt hér á landi þegar kemur að stórum umhverfisákvörðunum. Þetta þýðir sem dæmi að hér geti útlendingar komið og kaffært íslensku stjórnsýsluna í kærum ef umdeilt umhverfismál eða virkjunarmál er í uppsiglingu. Ég tel algjörlega ófært að binda svona í stjórnarskrá, þarna erum við farin að binda réttindi annarra þjóða inn í íslensku stjórnarskrána.

Það eru mörg svona ákvæði sem stangast á við gildandi sannfæringu okkar sem þjóðar.

Svo er eitt sem ég er mótfallin í frumvarpi þessu, hinum svokölluðu þriðju kynslóðar réttindum, eins og ákvæði um dýravernd í stjórnarskránni. Stjórnarskrá hvers ríkis á fyrst og fremst að verja þegna landsins fyrir ágangi stjórnvalda. Við getum ekki farið að verja dýr í stjórnarskrá Íslands.

Virðulegi forseti. Málið er komið út um víðan völl. Það er gott að það skuli vera komið inn í þingið, það er gott að það er komið í þann farveg að við getum farið að ræða málið efnislega. Það er svo brýn þörf á því að leiðrétta þann misskilning sem felst í mörgum tillögum stjórnlagaráðs um þessi ákvæði.

Ég ætla ekki að fara yfir jöfnun atkvæðisréttar og þau mál því að því hafa verið gerð góð skil hér í dag í ræðum, en ég er alveg hissa á því að það er ekki nægilega vel tekið, að mínu mati, á því hvað til dæmis hugtakið „þjóðar“ er. Það hefur verið ágreiningsefni bæði fyrir dómstólum og meðal þjóðarinnar hvað nákvæmlega „þjóðin“ þýðir. Náttúruauðlindir skulu vera í þjóðareign. Það er reynt að útskýra þetta í greinargerðinni, en það er ekki skýrt nægilega vel til að enginn vafi leiki á því hvað hin svokallaða þjóð er. Eru það Íslendingar sem búsettir eru á Íslandi? Er þjóðin Íslendingar búsettir í útlöndum? Er þjóðin Íslendingar og útlendingar búsettir hér á landi? Hvað er þjóðin?

Hér var tækifæri til að útskýra þetta í eitt skipti fyrir öll svo þetta ákvæði mundi halda fyrir dómstólum, en það eru svona meginþættir sem vantar enn. Okkur er talin trú um að þetta frumvarp hafi fengið mjög faglega meðferð. Ég kem til með að kalla í vetur eftir skilgreiningu á því hvað þetta þýðir nákvæmlega.

Tími minn er að verða búinn en ég get sagt að þarna eru til dæmis tillögur um að ráðherrar undirriti eiðstaf að stjórnarskránni. Þarna er talað um að embættismenn undirriti eiðstaf að stjórnarskránni. Málið er ekki nægilega vel unnið. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur fengið þetta til sín og það verður að fara mjög vel yfir málið en ég tel (Forseti hringir.) á nýjan leik að við eigum að breyta þeirri stjórnarskrá sem er í gildi, þeim ákvæðum sem eru ekki nægjanleg í dag, í stað þess að semja hér nýja stjórnarskrá.