141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:18]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu. Mig langar að víkja að einu atriði sem hún hafði ekki tök á að nefna, það er 111. gr. þar sem fjallað er um framsal ríkisvalds. Þar sýnist mér vera opnar heimildir til að framselja ríkisvaldið. Þar er kveðið á um að heimilt sé að gera þjóðréttarsamninga sem feli í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland eigi aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu.

Ef maður skoðar athugasemdakaflann kemur þar fram að þetta mál virðist í fyrsta lagi kveða á um að þessi heimild nái til allra þriggja þátta ríkisvalds, löggjafarvaldsins, þ.e. valds Alþingis, dómsvaldsins, sem verður yfirþjóðlegt dómsvald, og loks framkvæmdarvaldsins. Það sem vekur áhyggjur mínar til viðbótar er að í skýringartextanum koma fram einhvers konar vangaveltur um það hvað þetta gæti að öðru leyti þýtt. Það er sagt að á þessum grundvelli geti verið heimilt að framselja vald til stofnunar sem samið hefur verið um aðild að, en það taki þó ekki gildi fyrr en (Forseti hringir.) sá samningur hefur verið samþykktur. Mér sýnist því í fyrsta lagi að um sé að ræða mjög umsvifamikið valdaframsal, (Forseti hringir.) og í öðru lagi mikið mat á því til hvaða þátta það þó nær.