141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:21]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta ákvæði felur í sér mjög víðtækt valdaframsal. Það er valdaframsal gagnvart dómsvaldi, framkvæmdarvaldi og löggjafarvaldi, þ.e. öllum þremur meginstoðum okkar samfélags. Eins og ég nefndi hér áðan er það síðan dálítið uggvekjandi að engu að síður er það svo að í greinargerðinni er mjög í vangaveltustíl reynt að leggja út frá því hvað þetta þýði í raun og sann.

Við skulum skoða hvað þetta getur greinilega haft í för með sér. Ef við tökum bara dæmi af einhverju sem er nokkuð nærri okkur í tíma, þ.e. þessar hugmyndir um að ganga í Evrópusambandið. Ef það yrði niðurstaða þjóðar okkar að gera það, eða niðurstaða Alþingis öllu heldur, þyrfti ekki frekar að spyrja um það mál. Allar heimildir til að framselja vald, íslenskt vald, fullveldi okkar, væru til staðar. Ef við gengjum í Evrópusambandið þyrfti að breyta stjórnarskránni til að opna á þessar heimildir, að minnsta kosti í þessu tiltekna atriði, en í stað þess er hér um að ræða (Forseti hringir.) mjög almennar opnar heimildir sem verið er að setja í stjórnarskipunarlög okkar.