141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:22]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að þessi umræða skuli koma upp núna vegna þessa valdaframsals því það er ekki bara verið að binda í stjórnarskrá að um fullt framsal ríkisvalds sé að ræða, heldur stendur nánar í greininni að með almennum lögum skuli og afmarka það í hverju valdaframsalið felst.

Ég gleymdi að tala um það í ræðunni áðan að þetta frumvarp er fullt af ákvæðum um að frekari ákvæði skuli gilda í almennum lögum. Við vitum hvernig lagasetning á Alþingi hefur þróast, hún hefur farið út í reglugerðafargan. Almenn lög segja til um að ráðherra skuli setja nánari ákvæði í reglugerðum og þá er raunverulega kominn stjórnskipunarleki út úr þessu frumvarpi. Það er verið að framselja stjórnarskipunarvaldið alveg niður í framkvæmdarvaldið með þessu. Það tel ég vera mjög alvarlegt atriði og raunverulega stórgalla á þessu frumvarpi, því að það má aldrei gerast.

Það á að vera erfitt að breyta (Forseti hringir.) stjórnarskrá. Það er ekki hægt að framkvæma nánast hverja einustu lagagrein í stjórnarskránni með lagaframsali (Forseti hringir.) með þessum hætti.