141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir skorinorða ræðu eins og hennar er von og vísa. Ég er yfirleitt mjög ánægður með hennar ræður.

Nú vil ég spyrja hv. þingmann, sem hefur starfað í hv. þingnefnd sem um þetta mál vélar og flytur málið, eða meiri hluti hennar, hvort það sé rétt sem sagt hefur verið að þar hafi farið fram efnisleg umræða, mjög ítarleg, allt síðasta þing frá byrjun til enda. Ég vil fá það staðfest.

Ég vil líka spyrja hana hvort nefndin hafi lesið allar umsagnir þar á meðal umsögn mína upp á 13 plús 25 síður þar sem ég geri fjöldann allan af athugasemdum og breytingartillögur.

Ég vil líka spyrja hana hvort þau hafi ekki líka skoðað frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breytingar á 79. gr. sem gerir það mögulegt, og ég sé enga aðra leið rökfræðilega, að þjóðin greiði atkvæði með bindandi hætti um stjórnarskrána sína.