141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:27]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að svara þeim spurningum sem ég átti eftir að svara áðan.

Jú, ég hef lesið allar umsagnir með þessu frumvarpi og þar með tillögur hv. þm. Péturs H. Blöndals. Ég hef líka lesið sérstaklega tillögu hans um breytingar á 79. gr. og er þingmanninum ekki sammála. Ég tel að það verði að vera faglegur ferill, stjórnskipunarvaldið er tvö þing og kosningar á milli. Eins og ég hef svo oft farið yfir áður þá sitja 63 þingmenn á þingi, það eru alþingiskosningar. Þá er kosið um stjórnarskrá í leiðinni. Það koma 30 nýir þingmenn inn á þingið, þá er stjórnskipunarvaldið 93 þingmenn. Við erum með virkt fulltrúalýðræði.

Þetta með herskylduna, það var gott að þingmaðurinn kom inn á það. Það stendur í tillögum stjórnlagaráðs að herskyldu megi aldrei í lög leiða. Hvernig ætlar stjórnarmeirihlutinn að fara að því ef samþykkt verður að ganga í Evrópusambandið og í Lissabon-sáttmálanum er ákvæði um herskyldu? Þarf þá að rjúfa þing og koma saman og breyta (Forseti hringir.) stjórnarskránni til þess að það megi stofna her hér á landi? Svona eru andstæðurnar í þessu. (Forseti hringir.) Þess vegna er ég að hvetja til þess að afmörkuðum þáttum verði breytt en að þessu verði ekki breytt svona alhliða.