141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:30]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var nákvæmlega spurningin sem þurfti að koma fram í umræðunni í framhaldi af því sem ég talaði um áðan, það er mikið lagastjórnskipunarframsal falið í þessu frumvarpi. Oftar en ekki er kveðið á um það í lagagreinunum að frekari framkvæmd skuli eiga sér stað með almennum lögum. Það er það sem er að gerast.

Lögfræðiteymið var spurt að því hvað fælist nákvæmlega í ákvæðinu. Enn er ekki búið að vinna neitt heildstætt plagg um hversu mörgum lögum þarf að breyta ef þetta verður óbreytt að stjórnarskrá Íslands.

Frumvarpið setur jafnframt öll fordæmi í hæstaréttardómum í uppnám. Ég er að vísa í mannréttindakaflann sem var lögleiddur 1995 og er komin góð réttarframkvæmd á þannig að Íslendingar vita orðið, þegar miðað er við dómaframkvæmd, hvaða réttindi þeir búa við hér á landi. Virðulegi forseti. Verði þetta samþykkt skapast ringulreið og réttaróvissa.