141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:33]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þjónar ekki hagsmunum neinnar þjóðar að taka í gildi stjórnarskrá sem leiðir af sér að það skapast réttarleg óvissa. Ég talaði um ringulreið áðan. Ég tel að það sé réttnefni vegna dómaframkvæmda sem þarf að fara í í kjölfarið. Almenningur ber mikinn kostnað af því að fara í dómsmál og ríkið ber helminginn. Hefur íslenska ríkið efni á því nú um stundir? Nei, ég get ekki séð það.

Þau réttindi sem er verið að færa inn í stjórnarskrána voru gagnrýnd af lögfræðiteyminu sem kom fyrir nefndina því eins og ég kom að í máli mínu áðan á stjórnarskráin að verja réttindi þegna fyrir ofríki stjórnvalda.

Hér er til dæmis 10. gr. í þessu frumvarpi, Vernd gegn ofbeldi, með leyfi forseta:

„Öllum skal tryggð vernd gegn hvers kyns ofbeldi, svo sem kynferðisofbeldi, innan heimilis og utan.“

Þarna er verið að leggja til að einkaaðilar geti farið í mál hver við annan (Forseti hringir.) á grundvelli stjórnarskrár. Svo ég nefni sem dæmi þekkist það ekki í neinni stjórnarskrá.