141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:40]
Horfa

Róbert Marshall (U):

Virðulegur forseti. Hér hefur að mörgu leyti farið fram mjög málefnaleg og skemmtileg umræða um það stóra mál sem hefur verið til umfjöllunar í þinginu allt þetta kjörtímabil og töluvert lengur en það.

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir gerir hér mikinn ágreining vegna ákvæðis um dýraverndarlög. Ég verð að segja að ef það atriði er að hennar mati frágangssök í þessu máli þá eru vandamálin sem við þurfum að takast á við ekki mikil. Í rauninni er ég þeirrar skoðunar eftir að hafa hlustað á ræður hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar í þessu máli að ekki sé svo ýkja langt á milli manna þegar hlustað er eftir efnisatriðunum. Okkur ætti í sjálfu sér að duga sá tími sem er til kosninga til að fara yfir þann ágreining og reyna eftir fremsta megni að ná sátt.

Dan nokkur Quayle, sem var einu sinni varaforseti Bandaríkjanna og frægur að endemum fyrir ambögur og skrýtnar setningar, sagði eitt sinn að útbreiðsla lýðræðis væri óumflýjanleg, [Hlátur í þingsal.] en það gæti breyst. Jafnundarlega og sú setning hljómar er samt sem áður sannleikskorn í henni vegna þess að manni finnst lýðræðið vera aðferð sem hefur virkað mjög vel til að taka ákvarðanir og að það hljóti að vera niðurstaða okkar í sögulegu samhengi að það sé besta leiðin. Í því felst ferli fyrir fólk sem er með mismunandi skoðanir að komast að niðurstöðu, í ferlinu er skipst á skoðunum því að eðlilegt er að vera með mismunandi skoðanir og á endanum er kosið um hvaða leið skuli fara. Meiri hlutinn ræður, það er ferlið.

Það er mikilvægt að ferlið sem við erum með stjórnarskrána í sé virkt. Þegar fyrir liggur að við komumst ekki nær hvert öðru, við höfum ekki sömu sýn á hvernig endanlega útgáfan á að vera þá höfum við hv. þingmenn tæki sem felst í tökkunum á borðinu okkar þannig að meiri hlutinn ræður og tekin er ákvörðun um framhaldið.

Það er mikilvægt í þeirri umræðu sem fram fer núna að menn beiti ekki því sem hefur of mikið verið stundað í pólitík, að forða því að ákvörðun verði tekin og koma í veg fyrir að menn gangi ferlið á enda. Það ferli sem málið er í hefur verið umfangsmikið og langt. Samhliða því hefur farið fram mikil efnisleg umræða um þau atriði sem eru í drögum að nýrri stjórnarskrá. Burt séð frá því hvort menn horfa á ferlið sjálft og það sem gerðist innan stjórnlaganefndar, innan þjóðfundarins, innan stjórnlagaráðs, innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eða í meðförum sérfræðinga sem komið hafa að málinu þá hefur verið mikil efnisleg umræða í samfélaginu um fullveldisframsalið, um tengsl Íslands við umheiminn, um tengsl Íslands við EES, tengsl Íslands við ESB og hvað það feli í sér.

Það er rangt sem haldið hefur verið fram í þessari umræðu að við höfum ekki tekið efnislega umræðu um málið því að það höfum við gert þó að sú umræða hafi ekki beinlínis verið tengd þessu frumvarpi.

Gríðarlega mikil umræða hefur farið fram á undanförnum missirum og árum um stöðu íslensku þjóðkirkjunnar. Samfélagið allt hefur tekið þátt í umfangsmikilli umræðu um stöðu þjóðkirkjunnar. Í þessari tillögu er komin niðurstaða sem ég get vel fellt mig við. Ég held hún sé góð lending og í takt við vilja þjóðarinnar og veit að hún er það.

Gríðarlega mikil umræða hefur farið fram um stöðu forsetaembættisins, ekki bara á þessu kjörtímabili heldur allt frá árinu 2004 þegar forseti lýðveldisins beitti 26. gr. stjórnarskrárinnar í fyrsta skipti.

Eignarhald á náttúruauðlindum hefur verið til umræðu í íslensku samfélagi áratugum saman.

Jöfnun atkvæðisréttar hefur verið til umræðu í íslensku samfélagi áratugum saman, kjördæmaskiptingin sömuleiðis.

Á þessu kjörtímabili hefur verið gríðarlega mikil umræða um samskipti framkvæmdarvalds og löggjafarvalds, þingsetu ráðherra o.s.frv.

Það er alrangt að ekki hafi farið fram efnisleg umræða um það sem þessi tillaga um nýja stjórnarskrá felur í sér. Efnisleg umræða hefur farið fram hér á þingi, á vettvangi fræðimanna, í fjölmiðlunum og út um allt í samfélaginu.

Það sem er fram undan er auðvitað prófsteinn á þá stjórnmálaflokka sem skipa þingið og okkur þingmenn sem hér sitjum hvort við getum hafið okkur upp úr þeim hjólförum flokksátaka sem því miður eru orðin allt of rótgróin í íslenskum stjórnmálum og eru ástæðan fyrir því að ég ásamt öðrum hef ákveðið að ganga til liðs við nýja hreyfingu sem kennir sig við bjarta framtíð og ætlar að reyna eftir fremsta megni að koma með hugarfarsbreytingu inn í íslensk stjórnmál, að nálgast hlutina með öðrum hætti. Það er gríðarlega mikilvægt í þessu stóra máli að við sem hér sitjum reynum að gera það líka. Ég held að það sé vel mögulegt. Það hefur verið gert í þessu máli og tókst vel. Ég vísa þá til upphafs málsins í allsherjarnefnd þegar ágætissamstaða náðist um það ferli sem síðan fór af stað.

Í hinni hefðbundnu pólitík sem stunduð hefur verið, ekki bara á Íslandi heldur um heim allan, væri það kappsmál stjórnarflokka að ljúka þessu máli fyrir kosningar til að geta sagt í aðdraganda kosninga: Þessu lofuðum við, þetta stóðum við við. Það væri að sama skapi kappsmál fyrir stjórnarandstöðu hvar sem er, ekki bara á Íslandi heldur víðs vegar um heiminn, að stöðva slíkt ferli til að sýna fram á að stjórnarflokkunum sé ekki treystandi, þeir séu óhæfir, vanhæfir, það eigi að kjósa einhverja aðra. Þetta er ekki mál til að stunda slík vinnubrögð. Þetta er ekki víglínan sem stjórnmálaflokkarnir eiga að draga í sandinn í þessum efnum.

Við erum nefnilega ekki í spreng við að klára nýja stjórnarskrá. Okkur vantar ekki nýja stjórnarskrá í maí á næsta ári. Það er ekki heldur ástæða til að hætta ferlinu. Það hefur tekið langan tíma. Það er að mörgu leyti vandað og er nú komið til efnislegrar umræðu hér.

Þá hljóta menn að spyrja: Hvar eru hugmyndirnar? Ef stjórnarandstaðan gagnrýnir stjórnarmeirihlutann fyrir að hafa látið 18 mánuði líða frá því að tillögurnar komu frá stjórnlagaráði, hvar eru þá hugmyndirnar frá stjórnarandstöðunni, fyrir utan 37 blaðsíðna greinargerð frá hv. þm. Pétri Blöndal, sem er góðra gjalda verð en ekki hugmynd stjórnarandstöðunnar eins og hún leggur sig, eins og við heyrðum hér áðan? Hvar er sú fræðivinna sem stjórnarandstaðan kallar eftir? Af hverju hefur hún ekki leitað til sérfræðinga? Af hverju kemur hún ekki með tillögur um það hvernig beri að skilgreina þjóðina, eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir fór hér yfir áðan? Af hverju spyr hv. þm. Vigdís Hauksdóttir ítrekað í ræðustól hvernig menn skilgreini þjóð? Af hverju kemur hv. þingmaður ekki með tillögu í þeim efnum?

Ef það er markmið stjórnarandstöðunnar að tefja málið og koma í veg fyrir að það verði afgreitt fyrir kosningar er ekki eftir neinu að bíða, þá eigum við að ganga strax til atkvæða. En ef stjórnarandstaðan er með efnislegar tillögur í málinu sem þarf að fara yfir og getur tekið tíma eigum við að viðurkenna að það geti tekið tíma og fara efnislega yfir málið. Þá getum við samþykkt frumvarp hv. þm. Péturs Blöndals um breytingu á 79. gr. stjórnarskrárinnar sem felur í sér að á næsta kjörtímabili getum við breytt stjórnarskránni og borið hana síðan undir atkvæði þjóðarinnar sem staðfestir þá breytinguna. Það er ekki auðveld leið til að breyta stjórnarskránni en það er auðveldari leið en sú sem við höfum nú. Hún felur ekki í sér, ef okkur vinnst ekki tími til að ljúka þessu máli fyrr en eftir kosningar, að við þurfum að bíða til ársins 2017 eftir nýrri stjórnarskrá. Þetta er sú leið sem við höfum til þrautavara í þessum efnum.

Það er mikilvægt í þessu efni að sem flestir séu sáttir við niðurstöðuna. Það yrði mjög óheppilegt ef helmingur þjóðarinnar væri ósáttur við stjórnarskrá sína. Það gengi ekki upp. Það er til mikils að vinna að ná sátt í málinu. Það er ekki síður mikilvægt að ferlið, lýðræðið og sú aðferð sem við sem samfélag höfum ákveðið að nota til að komast að niðurstöðu verði virt. Hér stendur málið nú.

Ég er í sjálfu sér ekki búinn að fara mikið efnislega í tillöguna sjálfa. Ég er einn af flutningsmönnum hennar og það felur í sér að ég er mjög sáttur við hana eins og hún er. Það þýðir ekki að það megi ekki breyta neinu. Það þýðir einfaldlega að ég auglýsi eftir hugmyndum, efnislegum tillögum, rökum og ábendingum um það sem betur má fara.

Ég veit að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa margar spurningar, en ég hef líka spurningar til þeirra. Ég vil fá að vita hvernig þeir vilja breyta einstökum greinum, hvað það er nákvæmlega sem er frágangssök í þeirra huga. Er það rétturinn til lífs? Má það ákvæði í hugum einhverra ekki vera í stjórnarskránni? Er það óskýrt í huga einhvers? Er ákvæðið um dýravernd þannig að það sé frágangssök og ástæða sé til að hætta allri vinnunni og lýsa frati á það sem hér liggur fyrir? Ég held ekki.

Ég hvet fólk, sem er að fylgjast með þessu máli, til að taka sér klukkutíma í kvöld og lesa bæði skjölin, lesa núgildandi stjórnarskrá og bera hana saman við þá tillögu sem við höfum hér. (ÍR: Klukkutíma?) Já, hv. þm. Íris Róbertsdóttir, ég held að það taki ekki lengri tíma að lesa þær greinar sem fyrir liggja en um það bil hálftíma, fjörutíu mínútur og núgildandi stjórnarskrá ekki meira en tuttugu mínútur, að renna yfir þessi tvö skjöl og bera þau saman. Það blasir við hverjum þeim sem ber þau saman að tillagan sem hér liggur fyrir er betri en núgildandi stjórnarskrá. (Gripið fram í: Oh, my god.) Hún er miklu skýrari, miklu aðgengilegri, nútímalegri og betri í alla staði. Fyrir þá sem ekki treysta sér í strípaðan lagatextann er til ágætur kynningarbæklingur sem hægt er að grípa til og var dreift á öll heimili í landinu þar sem menn geta borið þetta saman. Þessi tillaga er að mínu mati betra skjal og það ræður afstöðu minni í málinu.