141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:53]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Maður situr hálflamaður eftir ræðu hv. þm. Róberts Marshalls, að telja að hægt að sé að fara í gegnum stjórnarskrármál á hálftíma eða klukkutíma lýsir náttúrlega málinu. En á sama tíma telur þingmaðurinn að málið sé vel unnið, umfangsmikið og efnisleg umræða hafi verið mjög mikil. Það er rangt — alfarið rangt.

Því langar mig til að nefna við hv. þingmann, vegna þess hann telur að það sé svo mikil samstaða um þetta mál hjá vinstri mönnum, að nú eru vinstri menn í ríkisstjórn og þá á allt í einu meiri hlutinn að ráða för. Framsóknarmenn og sjálfstæðismenn hafa verið lengi saman í ríkisstjórn af lýðveldistímanum og aldrei hefur okkur dottið í hug að fara með stjórnarskrárbreytingar í gegnum þingið á einhverju meirihlutavægi. Aldrei höfum við hótað því. Það er því merkilegt að núna þegar við sitjum uppi með vinstri stjórn eigi allt í einu meiri hlutinn að gilda. Þetta er samfélagssáttmáli, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, en ekki stjórnarskrá vinstri manna.