141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sagði að það væri ekki langt á milli manna, það væri hægt að ná sátt. Ég vona það líka. Virðing fyrir stjórnarskránni er þvílík að hún er yfirleitt rædd á Alþingi um nætur. Nú er klukkan orðin 21. Mér finnst það ekki virðing við stjórnarskrána að ræða hana á þessum tíma, ég segi bara eins og er. (VigH: Sammála.)

Þegar maður fer í gegnum einstakar greinar — ég fór í gegnum hverja einustu grein stjórnlagaráðs, hverja einustu, en ég var ekki eins klár og almenningur að ég þyrfti til þess tvo tíma, ég þurfti til þess allt jólafríið í fyrra og lungann úr janúar, (Gripið fram í.) ég er náttúrlega takmarkaður og vinn greinilega ekki nógu hratt — þá komst ég til dæmis að því að forseti Alþingis missir löggjafarvaldið ef hann sem þingmaður býður sig fram til forseta Alþingis. Finnst hv. þingmönnum það eðlilegt? Hann er kosinn í löggjafarvald en hefur svo allt í einu ekki atkvæðisrétt.

Síðan segir hv. þingmaður að það hafi verið gríðarleg umræðu utan Alþingis. Það getur vel verið, en hún hefur ekki verið innan Alþingis.