141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:59]
Horfa

Róbert Marshall (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fór yfir það í ræðu minni að ég væri mjög sáttur við þá tillögu sem liggur fyrir, enda er ég einn af flutningsmönnum hennar. Það virðist vera einhver misskilningur um hvað ég var í raun og veru segja í ræðustól. Ég sagði að ef menn væru tilbúnir til þess að koma með efnislegar tillögur og ræða sín á milli um hvernig væri hægt að ná sátt um það plagg sem hér liggur fyrir þá fyndist mér að við ættum að taka tíma í það. En ef slíkar tillögur eru ekki fyrir hendi, þeim er ekki til að dreifa, er engin ástæða til að draga málið neitt mikið lengur því að það er búið að vera í löngu ferli og fullkomin ástæða til að láta meiri hlutann ráða.

Síðan er það auðvitað þannig, eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir benti á, að þjóðin kýs í apríl og á þing kemur nýr meiri hluti sem heldur væntanlega áfram með málið.