141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Gildandi stjórnarskrá er forsenda margra hæstaréttardóma. Ég nefni kvótadóminn sem breytti mjög miklu í kvótamálum. Ég nefni öryrkjadóminn sem breytti mjög miklu fyrir öryrkja. Þessar forsendur bresta þegar stjórnarskránni er breytt að þessu leyti. Nú er allri stjórnarskránni breytt. Ég er hreinlega, frú forseti, skelfingu lostinn að hugsa til þess óöryggis sem kemur upp í landinu í kjölfarið. Það er þess vegna sem ég vara menn við því að gera svona miklar breytingar.

Ég vil miklu frekar að menn nái fram breytingum sem allir eru sammála um. Gerum það hratt og vel að samþykkja það. Síðan fari menn í alltaf sífellt meiri og meiri og meiri ágreiningsmál og semji sig niður til niðurstöðu, flest mál eru þannig að menn geta sameinast um þau.

Hvað er þjóð? Í tillögum stjórnlagaráðs er þetta út og suður, ríkisborgararéttur o.s.frv. Ég vil að þetta sé skilgreint nákvæmlega. Fyrir hvern gildir stjórnarskráin?