141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:02]
Horfa

Birna Lárusdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þm. Róberts Marshalls og borið saman við orð hv. þm. Magnúsar Orra Schrams fyrr í dag þá heyri ég að alla vega þessir tveir flutningsmenn tillögunnar eru opnir fyrir því að hlusta á ábendingar þingmanna úr minni hlutanum og jafnvel að koma til móts við þá. Í máli hv. þm. Róberts Marshalls kom líka fram að hann teldi oft og tíðum ekkert endilega svo langt á milli manna. Báðir virðast telja að svigrúm sé til breytinga og það held ég að sé vel.

Ég skynja hins vegar ákveðinn hæðnistón úr röðum meiri hluta þingmanna í garð þeirra sem eru að bera fram fyrirspurnir og mér finnst það ekkert sérstaklega farsælt til árangurs, til að mætast á miðri leið. Ég held að menn ættu að láta af slíkum málflutningi og ræða þessi mál af yfirvegun og virðingu við málefnið.