141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:07]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hjá hv. þingmanni, eins og hv. þm. Birna Lárusdóttir kom inn á, að við erum ekki í spreng, hv. þingmaður orðaði það þannig. Við þurfum að gefa okkur góðan tíma, við þurfum að gera þetta vel og þetta þarf að vera í þessari svokölluðu sátt.

Mér finnst frábært ef það er það sem þingmaðurinn er að leggja til og vill gera. Við viljum öll hafa stjórnarskrá sem þjónar okkur og við þurfum að gera breytingar á henni. Ég held að enginn hafi komið hingað upp og sagt að ekki eigi að breyta neinu, ekki nokkur maður.

Mig langar að beina þessari spurningu til hv. þingmanns: Fyrst ekki þarf að gera þetta í spreng er þá ekki hægt að skipta þessu niður? Ef hann heldur að það sé hægt, af því að hann talaði um að kannski þyrfti ekki að klára þetta á þessu kjörtímabili eða á þessu þingi, hvernig mundi hann geta hugsað sér að skipta þessu? Er eitthvað sem hv. þingmaður mundi vilja taka fyrst og hvað þá helst?