141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:11]
Horfa

Róbert Marshall (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er það sem ég var að segja. Ef fram koma tillögur frá stjórnarandstöðunni inn í þá vinnu sem nú fer fram á vettvangi þessa þingsalar og hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og allra nefnda þingsins þá eigum við að taka þann tíma sem til þarf. En ég segi líka: Föllum ekki í þá gryfju að stjórnarandstaðan fari að tefja málið til að stjórnarmeirihlutinn komi illa út og reyni að keyra málið áfram til að ljúka því fyrir kosningar. Ef engar efnislegar athugasemdir eru gerðar eða ekkert efnislegt framlag er til umræðunnar eigum við að greiða atkvæði um það strax og ljúka málinu. Svo liggur það náttúrlega fyrir eftir næstu kosningar að ljúka málinu. Ef um er að ræða efnisatriði sem þarf að taka lengri tíma í, þá getum við samþykkt frumvarp hv. þm. Péturs H. Blöndals. Þjóðin kýs sér þá meiri hluta sem heldur áfram með málið á næsta kjörtímabili eða ekki.