141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Ég gæti gert athugasemdir við mjög margt í tillögum stjórnlagaráðs, eins og það að allir eigi meðfæddan rétt til lífs. Á fóstrið engan rétt til lífs því að það er ekki fætt og hefur þar af leiðandi ekki meðfæddan rétt? Þetta er eitt atriði af fjöldamörgum. Þetta finnst mér að þurfi að laga og mér finnst að það ætti hreinlega að segja: Engan mann má drepa. Punktur. Þá liggur það alveg fyrir og engin skrúðmælgi um að menn eigi rétt til lífs. Hvernig er með mann sem lifir á líknardeild? Á hann rétt til lífs? Og hver ætlar að gefa honum réttinn?

Svo eru atriði sem ég hef bent á áður í 109. gr., að ef gerð yrði árás á Ísland ætti að kalla saman Alþingi til að spjalla á meðan menn hertaka hér allar götur. Það má nefnilega ekki beita vopnavaldi nema með samþykki Alþingis. Þetta þarf að undanskilja, varnir landsins, að sjálfsögðu.

Svo er atriði með forseta þingsins. Ef maður sem býður sig fram til löggjafarstarfa skyldi vera kosinn forseti Alþingis er hann ekki lengur í löggjafarstörfum.