141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:52]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega eru ýmis atriði eins og ég tiltók í ræðu minni áðan sem er ástæða til að fara yfir, bæði þær ábendingar sem komu frá sérskipaðri lögfræðingasveit sem fór yfir þessi mál, í textanum eins og hann er í frumvarpinu, ábendingar sem komu fram, þær sem hv. þm. Pétur Blöndal hefur lagt inn í umræðuna og ýmsir aðrir. Við þurfum að nota tímann vel á næstu vikum og mánuðum, vil ég meina. Við höfum tíma fram í febrúar, byrjun mars til að ljúka þeirri yfirferð. Ef við höldum vel á spöðunum getum við farið mjög langt með þetta mál og við eigum að einsetja okkur að ljúka því. Við eigum ekki að gefast upp áður en lagt er af stað eins og mér fannst því miður óma í ummælum forustumanna Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í dag. Mér þótti það miður.