141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að nota tímann núna í pólitískar skylmingar við hv. þm. Lúðvík Geirsson um hver sagði hvað í hvaða umræðu. Ég ætla að spyrja hann einnar spurningar sem varðar framhald málsins og það er í ljósi þeirrar athugasemdar sem kom fram hjá lögfræðingunum fjórum sem fóru yfir frumvarpið í umboði meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þar sem þeir víkja að mati á áhrifum tillagnanna. Í texta þeirra ágætu lögfræðinga segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Gera verður kröfu um að tilefni og markmið breytinga á núgildandi stjórnskipan sé skýrt og rök séu færð fyrir því að leið frumvarps sé skynsamleg. Það er einnig grundvallarsjónarmið varðandi gæði lagasetningar að metin séu áhrif tillagna sem fela í sér breytingar. Dregnir séu fram bæði kostir og hugsanlegar neikvæðar afleiðingar og heildarmat unnið sem leiðir í ljós að samanlagt sé ávinningur af samþykkt tillögu.“

Síðar í þessum texta segir lögfræðingahópurinn, með leyfi forseta:

„Ekki hefur hins vegar farið fram heildstætt og skipulagt mat á áhrifum stjórnarskrártillagnanna í heild. Það verkefni kallar á þverfaglega vinnu sem hópnum var ekki falin. Hópurinn gerir ráð fyrir að slíkt mat muni fara fram á vettvangi Alþingis en bendir að auki sérstaklega á þau atriði sem að hans mati kalla einkum á nánari skoðun.“

Kannski er það misskilningur en mér fannst í máli hv. þingmanns áðan gæta nokkurrar andúðar á því sjónarmiði sem hafði vissulega komið fram fyrr í þessari umræðu, að nauðsynlegt væri að skipulagt heildarmat færi fram og þess vegna spyr ég hann um afstöðu hans til þessara orða (Forseti hringir.) lögfræðinganna fjögurra.