141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[22:01]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki er ég nokkru nær um það hvernig hv. nefnd ætlar að svara þessu ákalli lögfræðingahópsins um að fram fari heildstætt mat á áhrifum fyrirliggjandi frumvarps. Það er gott og blessað og ég er sammála því að menn fari vel ofan í einstök efnisatriði og það má vel fela einstökum fagnefndum að gera það hvað þær áhrærir. Heildarmatið liggur samt sem áður eftir. Hv. þingmaður vísaði mjög til þess að þessi lögfræðingahópur hefði lagt upp með gott veganesti. Það er alveg rétt að svo miklu leyti sem hann hafði umboð til. Umboðið var mjög þröngt og ég spyr hv. þingmann: Hvers vegna var þetta umboð haft svona þröngt? Af hverju mátti ekki skoða þessi mál í heild sinni? Hefði það ekki verið málinu til gagns að reyna að undirbúa það sem allra best, fara ofan í þessar efnislegu forsendur og þessi efnislegu atriði sem kveðið er á um í frumvarpinu og reyna að átta sig á því í heildarsamhengi?

Það er hins vegar athyglisvert að hópurinn skilaði engu að síður kafla þar sem lauslega var vikið að ýmsum þáttum sem þyrfti að gera betur. Þarna er um að ræða talsvert veigamikil efnisleg atriði og ég spyr hv. þingmann: Verður tekið tillit til þess?

Ég ítreka spurninguna um þetta: Hvernig á þetta heildarmat að fara fram? Það er ekki heildarmat að fela einstökum þingmönnum afmörkuð verkefni út úr þessu frumvarpi. Heildarmatið fer allt öðruvísi fram og hv. þingmaður veit það auðvitað.

Síðan höfum við sjálfstæðismenn hvað eftir annað kallað eftir því að hér fari fram sú efnislega umræða sem nú er loksins að gerast og hv. þingmaður segist fagna því og þá spyr ég hv. þingmann: Nú fer fram þessi efnislega málefnalega umræða en til hvers á hún að leiða? Á þetta að vera bara málfundur eða lítur hv. þingmaður ekki svo á að með því að við séum að hefja málefnalega umræðu séum við um leið að segja sem svo: (Forseti hringir.) Við höfum opnar heimildir til að gera þær breytingar á þessu frumvarpi sem við teljum skynsamlegastar? (Forseti hringir.) Hv. þingmaður er væntanlega að segja að hann sé ósammála þeim sem hafa talað fyrir því að við séum bundin í báða skó af þessu frumvarpi og höfum takmarkað svigrúm til breytinga.