141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[22:06]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skiptir það ekki máli í þeirri umræðu sem við erum væntanlega að fara í gegnum að þá liggi fyrir allar tillögur sem snúa að þessu máli til að fá þetta endurmat og heildarmat? Er ekki ástæða til að þær athugasemdir og breytingar sem til að mynda þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa boðað og lýst yfir að þeir muni leggja fram í tillögum sínum að nýrri stjórnarskrá verði lagðar á borðið þannig að við getum lagt þær inn í þetta heildarmat? Ég held að það skipti máli fyrir okkur öll á sama hátt og menn telja ástæðu til að það liggi fyrir eitthvert heildarmat á þeim tillögum sem liggja á borðinu áður en hægt er að fara í hina efnislegu umræðu. Ég held að það sé rétt að við séum þá bara með öll spilin uppi á borðinu eins og ég nefndi í ræðu minni áðan. (EKG: Svara …)

Við vitum nákvæmlega um hvað málið snýst og hvað það er sem menn eru að meta og hvaða áhrif ákveðnar breytingar í þeim efnum hafa að segja hvað þetta snertir. (EKG: Svara spurningunni, takk.) Já, ég er búinn að svara henni. Hún liggur fyrir nákvæmlega með þessum hætti.