141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[22:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Á þeim takmarkaða tíma sem við höfum til umráða í 1. umr. ætla ég að neita mér um að svara öllum þeim sjónarmiðum sem hér hafa komið fram og ástæða væri til að gera athugasemdir við. Ég ætla ekki að fjalla um forsögu málsins eða þá gagnrýni sem ég og fleiri höfum haft uppi á þær aðferðir sem notaðar hafa verið á hinum ýmsu stigum þessa máls. Afstaða mín til forsögunnar liggur nokkuð skýrt fyrir í þingskjölum og annars staðar þannig að ég ætla ekki að eyða tímanum í þá umræðu núna.

Nú erum við í þeirri stöðu að komið er fram í fyrsta sinn frumvarp byggt á tillögum stjórnlagaráðs og þess vegna eru, eins og fleiri ræðumenn hafa nefnt í dag, komnar aðrar forsendur til að ræða málið efnislega. Fram til þessa hafa þær tillögur sem hafa komið inn í þingið fyrst og fremst snúist um málsmeðferð og umræðan í þinginu hefur eðli málsins samkvæmt þar af leiðandi legið mjög mikið á formhliðinni. Þær tillögur sem við fjölluðum til dæmis um í þinginu síðasta vetur snerust ekki um innihaldið heldur um formið og þess vegna var umræðan mjög á þeim nótum.

Nú er komið fram efnislegt frumvarp um breytingar á stjórnarskrá sem undirritað er af fulltrúum meiri hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og við hljótum að fjalla um það eins og það liggur fyrir. Á síðari stigum getum við svo í tilefni af orðum hv. þm. Lúðvíks Geirssonar rætt hvaða breytingartillögur aðrir en tillöguflytjendur sjálfir vilja gera við þetta frumvarp, hvaða athugasemdir koma fram og slíka þætti en hér er frumvarp sem verður að ræða og fjalla um á þeim forsendum sem það sjálft leggur upp með. Á síðari stigum eins og venja er í málsmeðferð í þinginu koma fram breytingartillögur eða eftir atvikum ný frumvörp ef um það er að ræða.

Ég ætla í þessari ræðu fyrst og fremst að drepa á nokkur atriði út frá því sem fjallað er um í ágætu skilabréfi sérfræðingahóps um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá sem dagsett er 12. nóvember og skilað var til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Bara til upprifjunar er rétt að nefna að eftir að meiri hluti Alþingis hafði í vor, maílok, samþykkt að efna til þeirrar atkvæðagreiðslu sem svo fór fram 20. október ákvað meiri hlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að fá til liðs við sig þennan sérfræðingahóp sem þá var aldrei talað um sem nefnd eða hóp heldur sem aðgreinda sjálfstæða sérfræðinga, hvern á sínu sviði. Látum það liggja á milli hluta. Ákvörðun meiri hlutans var að leggja þetta til. Ég fagnaði því á sínum tíma og taldi að þó að til hópsins væri stofnað að ákvörðun meiri hlutans í nefndinni og þó að það væri meiri hlutinn í nefndinni sem ákvað umboð hópsins og verkefni væri ástæða til að fagna þessu svo langt sem það næði.

Það kom fram í þinginu að ég teldi að umboð þessa hóps ætti að vera víðtækara en kom fram í bókun meiri hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en þetta var niðurstaða þessa sama meiri hluta og kannski ekki óeðlilegt í ljósi þess að þessi meiri hluti leit svo á að þarna væri verið að undirbúa frumvarpsflutning sem útlit væri fyrir að meiri hlutinn stæði einn að þannig að það liggi fyrir.

Lögfræðingahópurinn skilaði sem sagt af sér í haust, fyrr í þessum mánuði, og leggur til það sem ég kalla lögfræðilegar lágmarksbreytingar á þeim texta sem kom frá stjórnlagaráði. Mér finnst á texta lögfræðingahópsins og því sem fram kom bæði á fundi hans með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í síðustu viku og eins á opinberum fundi sem haldinn var á föstudaginn í Háskólanum í Reykjavík að lögfræðingahópurinn hafi tekið umboðið frá meiri hlutanum og valið frekar þrengri túlkun á umboði sínu en víðtækari. Mér finnst það koma skýrt fram í skilabréfinu að þær breytingartillögur sem hópurinn gerir byggist á því að hópurinn skilgreini umboð sitt frekar þröngt en haldi síðan utan við og í sérkafla í skilabréfinu ábendingum um aðra hluti sem hann telur utan síns beina umboðs. Nóg um það.

Breytingartillögurnar frá lögfræðingahópnum, beinar breytingartillögur við tillögur stjórnlagaráðs, eru 75 sem er auðvitað umtalsvert hvernig sem á það er litið. Breytingarnar eru mismiklar en í sumum tilvikum er verið að gerbreyta ákvæðum, a.m.k. að orðalagi og framsetningu. Í sumum tilvikum eru breytingarnar vissulega smávægilegri en þegar 75 breytingartillögur eru teknar saman er um umtalsverðar breytingar að ræða.

Ég vil taka það fram að ég tel við fyrsta yfirlestur að langflestar þeirra breytinga sem lögfræðingahópurinn leggur til séu til bóta, svo langt sem þær ná. Það eru örfá atriði þarna sem ég áskil mér rétt til að skoða betur en mér sýnist í fljótu bragði sem lögfræðingahópurinn geri góðar tillögur um lögfræðilegar lágmarksbreytingar á þessum tillögum, svo langt sem það nær. Það er sjálfgefið að við munum fjalla um þetta á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og ef til vill annars staðar. Ég tel þó að megináherslan hjá okkur eigi að vera í því að fjalla um þessar ábendingar sem eru þá minna lagatækni, ef við notum það orð, og meira efnislegar ábendingar sem fram koma í síðari hluta skilabréfs lögfræðingahópins. Bara til upprifjunar er rétt að geta þess að það er víða komið við í þessum ábendingum.

Í fyrsta lagi varpa lögfræðingarnir í hópnum fram spurningu sem við þurfum líka að spyrja okkur. Hvað á heima í stjórnarskrá og hvað á heima í almennum lögum? Í tillögum stjórnlagaráðs eru fjölmörg atriði sem gætu allt eins átt heima og eru jafnvel í almennum lögum í dag. Mér finnst alveg rétt, án þess að við gefum okkur nokkrar niðurstöður í því fyrir fram, að við veltum því fyrir okkur í sambandi við einstök tilvik, bara svo dæmi sé tekið varðandi störf Alþingis og skylda þætti, hvað á að vera í þingsköpum og hvað á að vera í stjórnarskrá. Ég held að við ættum að fara yfir þetta í þessari yfirferð.

Ég held að það sé líka nauðsynlegt að velta fyrir sér því atriði sem nokkuð hefur verið til umræðu og ég vona að ekki verði ágreiningur um þegar lengra líður og það er í sambandi við mat á áhrifum. Ég treysti mér alveg til að fara í efnislega umræðu núna um þessar tillögur án þess að slíkt mat liggi fyrir en ég held að það sé nauðsynlegt að fyrir liggi skipulagt heildarmat á þessum tillögum og áhrifum þeirra áður en afgreiðslu þingsins lýkur. Læt ég nægja að segja það um það efni.

Síðan eru einstök atriði sem lögfræðingahópurinn er með ábendingar um og þau varða flesta kafla stjórnarskrártillagnanna. Það eru athugasemdir við atriði sem varða undirstöðukaflann, I. kafla tillagnanna, athugasemdir sem varða mannréttindi og náttúru sem er II. kaflinn, Alþingi, forseta, ráðherra, ríkisstjórn, dómstóla, utanríkismál og stjórnarskrárbreytingar. Þetta eru ábendingar um mjög víðtæk atriði sem þarf að taka til skoðunar og ég fagna því að fá tækifæri í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og ef til vill öðrum nefndum þingsins til að fjalla um þessa þætti. Ég er þeirrar skoðunar að við séum ekki komin að niðurstöðu í þessum efnum. Við höfum fengið í hendurnar frumvarp sem við sem þingmenn þurfum að fara yfir, ræða, meta og láta meta fyrir okkur, ekki bara út frá því hvort tillögurnar geti gengið upp út frá lögfræðilegum lágmarkskröfum heldur líka út frá því hvort þetta eru góðar tillögur, hvort þær leiða til batnandi stjórnskipunar, hvort þær fela í sér betri réttarvernd fyrir einstaklinga landsins o.s.frv. Þetta eru atriði sem við þurfum að ræða.

Hér hefur verið kallað eftir umfjöllun um einstök efnisleg atriði. Í þessari 1. umr. eru auðvitað takmarkaðar forsendur og takmarkaður tími fyrst og fremst til að ræða það. Ég tel, hæstv. forseti, að það séu full rök til þess fyrir okkur í þinginu að taka góða umræðu um það hvort við viljum til dæmis gera þær breytingar á mannréttindakaflanum sem stjórnlagaráð leggur til, hvort við teljum að sú breyting, að sumu leyti má segja sú mikla breyting, sem felst í tillögum stjórnlagaráðs varðandi mannréttindakaflann sé til góðs eða ekki. Það hafa komið fram ábendingar, m.a. úr háskólasamfélaginu og víðar að, um að þarna sé kannski verið að gera miklu róttækari breytingar en sýnist í fyrstu. Það er nokkuð sem við þurfum að ræða þannig að við göngum þá að því verki með opnum augum hvað við viljum gera í því sambandi.

Hið sama varðar þann hluta þessa kafla sem snýr að náttúru og náttúruauðlindum. Þar vitum við af umræðu undanfarinna ára að orðalag og framsetning ákvæðis, t.d. um sameign þjóðarinnar á auðlindum eða þjóðareign á auðlindum, getur skipt gríðarlega miklu máli. Orðalagsbreytingar sem ekki virðast merkilegar við fyrstu sýn geta falið í sér mikla efnislega breytingu og falið í sér að túlkun ákvæðanna verði með allt öðrum hætti en ella hefði getað orðið. Það verkefni er fyrir höndum. Ég vek athygli á því að sérfræðingahópurinn breytir nokkuð orðalagi tillagna stjórnlagaráðs að þessu leyti og svo hafa auðvitað komið fram fleiri tillögur um orðalag slíks ákvæðis eins og nefnt hefur verið fyrr í þessari umræðu, bæði innan þings og svo nýlega frá háskólamönnunum Skúla Magnússyni og Ágústi Þór Árnasyni sem raunar sendu inn tillögu sem byggði á því sem varð niðurstaða í stjórnlaganefnd sem starfaði á fyrri stigum þessa ferils sem mér finnst að komi vel til greina að skoða í þessu sambandi líka.

Varðandi alþingiskaflann og slíka þætti er mér efst í huga spurningin um það hversu mikið á að vera í stjórnarskrá og hversu mikið í þingsköpum. Ég held að stjórnlagaráð gangi býsna langt í því að færa ákvæði inn í stjórnarskrártexta sem heldur ættu heima í þingsköpum. Ég velti líka fyrir mér spurningum, eins og reyndar hefur komið fram í þessari umræðu áður, um kosningaákvæðið sem ég held að ekki sé ofmælt að fáir telji sig skilja til hlítar, þ.e. átta sig á því hvernig það kemur til með að virka. Ég hef heyrt marga lýsa sig samþykka markmiðum frumvarpsins um jöfnun atkvæðisréttar og aukið persónukjör, en ég hygg hins vegar að fleirum sé farið eins og mér að þrátt fyrir að hafa oft lesið þennan texta áttum við okkur ekki alveg á því hvernig þetta kemur til með að virka. Það er fagnaðarefni ef þetta atriði verður tekið til sérstakrar skoðunar og reynt að meta áhrifin.

Ég nefni líka forsetaembættið eins og fleiri hafa gert í þessari umræðu og held að þar þurfum við einfaldlega að átta okkur betur á því hvað við viljum gera og útfæra síðan tillögurnar eftir því, en tillögur stjórnlagaráðs finnst mér leiða til nokkurrar óvissu. Ég er ekki einn um þá skoðun. Fræðimenn á þessu sviði hafa bent á það og vitnað hefur verið í túlkun forseta Íslands um það efni sem stangast mjög á við það sem einstakir menn úr stjórnlagaráði hafa haldið fram. Ég hygg að það sé ófært annað en að komist verði að niðurstöðu í þessum efnum sem sameiginlegur skilningur ríkir um í meginatriðum, en ekki mjög ólíkur skilningur eins og uppi er núna. Tek ég þó ekki afstöðu til efnislegrar niðurstöðu, heldur bara þess að niðurstaðan verði skýr. Ég get hugsað mér öflugt forsetaembætti og ég get hugsað mér veikt forsetaembætti en það er óheppilegt að blanda þessu mikið saman.

Ég ætla ekki að fara lengra í þetta. Tími minn er búinn (Forseti hringir.) en ég vildi þó áður en ég lýk máli mínu nefna eitt atriði sem ég tel að við þurfum að skoða sérstaklega vel og það varðar ákvæði sem snerta fullveldisframsal. (Forseti hringir.) Þar er ég þeirrar skoðunar að hvorki tillaga stjórnlagaráðs né það sem kom frá sérfræðingahópnum sé fullnægjandi niðurstaða og held að við þurfum (Forseti hringir.) að verja töluverðum tíma í það mikilsverða umfjöllunarefni.