141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[22:29]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek að sjálfsögðu undir með þingmanninum um að fólk á að kynna sér málin vel og þar með hvernig önnur ríki skipa sínum málum, en við erum líka sammála um að það gengur ekki að byggja upp frumvarp að nýrri stjórnarskrá með öllum þeim fyrirbrigðum inni í sem þingmaðurinn fór yfir. Það er hreinlega galið og það er ekki nóg með þetta sem ég fór yfir heldur gagnrýndi lögfræðiteymið, sem gerði skil fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, ekki eingöngu það að verið væri að taka nýja stefnu í stjórnskipunarmálum Íslendinga varðandi þessi þriðju kynslóðar réttindi heldur væri jafnframt verið að útfæra einkarétt í stjórnarskránni. Stjórnarskrá á að mínu mati fyrst og fremst að verja borgara viðkomandi ríkis gagnvart sitjandi stjórnvöldum hverju sinni. Þegnar ríkisins verða að hafa þann stjórnarskrárvarða rétt að geta vísað til stjórnarskrárinnar þyki þeim ríkisvaldið brjóta á rétti sínum.

Það er til dæmis ákvæði í þessari stjórnarskrá þar sem fjallað er um friðhelgi heimilisins og ég tek sem dæmi, af því að mér finnst það mjög athyglisvert ákvæði, að enginn þurfi að þola ofbeldi á heimili og þá ekki kynferðisofbeldi.

Þetta er farið að skarast á við friðhelgi einkalífsins sem og það að einstaklingar geti sótt sín á milli á grundvelli stjórnarskrárinnar þannig að þetta er komið að mínu mati út um víðan völl. Við erum með refsilöggjöf sem tekur til dæmis á kynferðisbrotum í almennum hegningarlögum sem flokkast sem almenn lög þannig að þarna er líka verið að setja inn í stjórnarskrána svo mörg ákvæði sem eiga heima í almennum lögum og eru nú þegar varin þar. Hvað finnst þingmanninum um þetta?