141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[22:31]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég náði ekki að koma inn á þriðju kynslóðar réttindin í fyrra svari mínu við andsvari hv. þingmanns. Þar er ég þeirrar skoðunar að við eigum að fara töluvert varlega. Ég játa að ég hef íhaldssöm viðhorf í þessum efnum og mér finnst hin svokölluðu þriðju kynslóðar réttindi einkennast of mikið af almennum stefnuyfirlýsingum fremur en handföstum lagareglum. Ég held að á vissan hátt sé óheppilegt að fjölga mikið hinum almennu stefnuyfirlýsingum í stjórnarskrá vegna þess að það er mjög óljóst hvaða rétt það raunverulega færir mönnum fyrir dómstólum. Stjórnarskrá er auðvitað lög og menn eiga að geta borið fyrir sig stjórnarskrárvarin réttindi fyrir dómstólum.

Um leið og við höfum óljós stefnumið í ríkara mæli í stjórnarskrá erum við í raun að framselja löggjafarvald til dómstóla. Þá erum við að segja: Við viljum stefna að því að hafa hér allt voða fínt og fagurt. Við stefnum að því að allir njóti andlegs og líkamlegs heilbrigðis að hæsta marki sem unnt er, eins og segir í einni greininni í þessum tillögum. En hver á að útfæra það? Hvað felst í því? Jú, segja menn, það er auðvitað löggjafinn sem á að gera það. Ef menn eru ekki sáttir við það sem löggjafinn gerir, hvað gera menn þá? Jú, menn fara til dómstóla og hver er það þá sem ákveður inntak reglunnar, þ.e. hvaða réttindi raunverulega felast í þessu ákvæði? Jú, það eru dómstólarnir.

Þetta er óhjákvæmilegt að einhverju leyti í stjórnarskrártexta en því fleiri ákvæði sem við höfum sem fela í sér óljósar stefnuyfirlýsingar af þessu tagi þeim mun meira vald erum við að færa úr þessum sölum yfir til dómstóla og það er í raun og veru andstætt minni hugsun um lýðræði.