141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[22:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar þó að þær séu allt of viðamiklar til að svara í stuttum svörum við andsvörum.

Ég ætla fyrst að nefna 67. gr. Ég held að það eigi eftir að skoða það sem hv. þingmaður spyr um, þ.e. hvernig samspil þessara tveggja ákvæða sé, ég held að menn eigi eftir að velta því svolítið fyrir sér og þá einmitt út frá þeim forsendum sem hann nefnir. Annaðhvort er talað um þjóðréttarsamninga, í 67. gr. sem er undanskilin þjóðaratkvæðagreiðslum og hins vegar er ákveðin krafa um þjóðaratkvæðagreiðslu í tilteknum tilvikum varðandi framsal ríkisvalds. Það þarf að lesa þetta saman og meðal annars út frá þeim sjónarmiðum sem hv. þingmaður nefnir.

Ég tek það reyndar fram að ég hef mjög miklar efasemdir um þær takmarkanir sem er að finna í 67. gr. Mér er ljóst að ákveðnar takmarkanir eru í stjórnarskrám víða varðandi það hvaða mál er hægt að bera undir þjóðaratkvæði en ég óttast að þarna sé verið að víkka þetta út umfram það sem eðlilegt væri. Eins og bent hefur verið á í umræðunum hefði þetta ákvæði, eins og það er orðað þarna, komið í veg fyrir að tiltekinn hluti þjóðarinnar hefði getað krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-samningana á sínum tíma. Þannig að það sé sagt. Sá möguleiki hefði vissulega áfram verið fyrir hendi fyrir forseta að neita að staðfesta lagafrumvörp á þessum forsendum. Ef forsetinn hefði nú ekki hirt um það en andstaðan verið jafnmikil í þjóðfélaginu hvar hefðum við þá verið stödd? Þetta er atriði sem ég tel að sé ófullnægjandi eins og það er útfært þarna.

Varðandi 111. gr. þá hef ég mjög margar athugasemdir um hana. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að fara yfir þetta, orðalag í þessu tilviki. Ég er ekki andvígur því að einhver grein af þessu tagi sé inni en ég hef gagnrýnt að tillaga stjórnlagaráðs hafi verið allt of opin, opnað allt of mikið, og að takmarkanirnar fyrir því að hægt væri að samþykkja fullveldisframsal í þjóðaratkvæðagreiðslu væru ekki nægar, það þyrftu einfaldlega að vera einhverjir þröskuldar þarna.