141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[22:38]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Þrátt fyrir að mjög gaman væri að fara dýpra ofan í 111. gr. ætla ég aðeins að fara betur ofan í 67. gr. Ég tek undir það með hv. þingmanni að þetta er eitthvað sem þarf að skoða miklu betur.

Tökum dæmi sem er okkur nærtækt, sem er hugsanleg aðild að Evrópusambandinu eða EES-samningurinn eða annað sambærilegt. Fari svo að Ísland ákveði að framselja slíkt ríkisvald til Evrópusambandsins þá, eins og þetta kemur fram í 67. gr., má vel draga þá ályktun — það sem er undanþegið þjóðaratkvæðagreiðslum, með leyfi frú forseta:

„Á grundvelli þeirra er hvorki hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem eru sett til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt.“

Samningar af þessu tagi hljóta að falla undir það með einhverjum hætti. Þá eru það öll mál sem heyra undir slíkar þjóðréttarlegar skuldbindingar. Þá eru það öll mál sem heyra undir málaflokka Evrópusambandsins, öll mál sem heyra undir EES-mál og annað því um líkt. Getur hv. þingmaður farið ofan í þetta, hvort þetta sé rangur skilningur hjá þeim sem hér stendur? Eða kemur einhvers staðar fram í gögnum málsins eitthvað sem styður það að sá sem hér stendur hafi rangt fyrir sér hvað þetta snertir?