141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[22:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur fyrir ræðuna. Við erum að sjálfsögðu ekki sammála um alla hluti í þessu sambandi en hins vegar fannst mér hún nálgast málin af yfirvegun og á málefnalegan hátt, sem ber að fagna.

Mér finnst ástæða til að vekja athygli á því að hv. þingmaður gerir efnislegar athugasemdir við nokkra þætti í þessum tillögum. Um sumt er ég sammála henni, ég held að þarna séu atriði sem við þurfum virkilega að íhuga. Varðandi kosningakerfið hef ég töluvert miklar efasemdir um útfærsluna sem þarna er að finna, ég hef ákveðnar áhyggjur af því að erfitt verði að útfæra þetta svo vel sé. Ef ég bara orða þá hugsun mína í stuttu máli get ég vel ímyndað mér kosningakerfi sem annars vegar byggir á kjördæmakosningu og hins vegar landskjöri, það eru fordæmi fyrir því.

Mér sýnist hins vegar að þarna sé að finna einhvers konar blöndu af þessum tveimur kerfum, m.a. að menn geti bæði boðið sig fram í kjördæmi og á landslista og mér finnst margt frekar óskýrt í þessari útfærslu. Ég tel að þó ekki væri nema þess vegna þurfum við að fara afskaplega vel yfir þessi ákvæði.

Síðan eru auðvitað hárrétt þau sjónarmið sem hún nefnir varðandi stöðu landsbyggðarinnar sem ótvírætt mundi veikjast á þingi yrðu þessar tillögur að veruleika. Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir að heimilt sé að binda tiltekinn fjölda þingsæta við tiltekin kjördæmi mundi það engu að síður leiða til töluverðrar fækkunar þeirra þingmanna sem kæmu utan af landi, það má gefa sér það miðað við að haldið sé í regluna einn maður, eitt atkvæði.